
Þriðjudaginn 2. desember kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en að þessu sinni verður Hanna Dóra Sturludóttir gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þær Hanna Dóra og Antonía bjóða upp á „Ave Maríur úr öllum áttum“, þar sem þær flytja verk eftir tónskáld frá Þýskalandi, Frakklandi, Póllandi, Ítalíu og Íslandi.
Hanna Dóra Sturludóttir, mezzósópran, stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnardóttur við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms við Listaháskólann í Berlín, þaðan sem hún útskrifaðist með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Síðan hefur hún átt farsælan feril í óperum og á tónleikum víða um heim, meðal annars í Þýskalandi, Póllandi, Austurríki, Frakklandi, Kanada, Egyptalandi og Katar, og hefur til dæmis sungið í mörgum virtustu óperuhúsum Þýskalands, svo sem Komische Oper, der Staatsoper Berlín, Hamburg og München. Hún hefur einnig komið reglulega fram á ljóðatónleikum, tekið þátt í flutningi kirkjulegra verka og sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, auk fjölda erlendra hljómsveita.
Hanna Dóra hlaut Gelsenkirchen-leikhúsverðlaunin fyrir áhrifamikla túlkun sína á hlutverki Terezu í óperunni Innocence eftir Kaiju Saariaho í Musiktheater im Revier í bænum Gelsenkirchen, Þýskalandi. Hún er þekkt fyrir tilfinningaríka túlkun og sterka tengingu við nútímaóperu og var hún til að mynda valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 fyrir hlutverk Eboli prinsessu í óperunni Don Carlo í uppsetningu Íslensku óperunnar. Hún vakti jafnframt athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK árið 2021, sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu vorið 2021 og hlaut í framhaldinu Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins. Hanna Dóra hefur lagt sérstaka áherslu á flutning nýrrar tónlistar og er prófessor og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
"*" indicates required fields