Sunnudaginn 8. febrúar kl. 13 munu Aldís Arnardóttir og Þórdís Jóhannesdóttir, sýningarstjórar, leiða gesti um yfirstandandi sýningar Eggerts Péturssonar, Roða, og Unu Bjargar Magnúsdóttur, Fyllingu. Þá sýna þau Una Björg og Eggert bæði ný verk sem beina sjónum áhorfenda að hinu smáa og hvernig allt er hluti af stærri heild, hvort sem um er að ræða gróður jarðar, skáldaðar og óskáldaðar sögur, efni eða rými.

Í aðalsal Hafnarborgar stikar Una Björg nýtt rými innan sjálfs sýningarsalarins sem stendur utan um reisulegt hús frá 1921, sem áður hýsti heimili og apótek. Aðalsalurinn ber þess skýr merki þar sem bogadregin framhlið eldra hússins er áberandi kennileiti salarins. Eitt af aðalverkum sýningarinnar leikur sama leik – lágreist skilrúm teygir sig um rýmið, mótar sig eftir salnum en stikar þó nýtt rými innan þess. Önnur verk eru unnin sérstaklega fyrir sýninguna, skúlptúrar, myndverk og pappírsverk, sem búa til fínlega frásögn sem reiðir sig á eiginleika rýmisins, efni þess og birtu, möguleika og takmarkanir.
Í Sverrissal sýnir Eggert svo málverk sem hann hefur unnið sérstaklega fyrir sýninguna en þar heldur hann áfram rannsókn sinni á íslenskri náttúru og beinir nú sjónum sínum upp á við – að fjallagróðri og opnum himni. Smæstu jurtir verða að stórbrotnu landslagi þar sem gróður og yfirborð jarðar breytast í fínstillta myndbyggingu sem endurspeglar tíma, birtu og breytileika. Einnig er sýnd sería nýrra grafíkverka, unnin í tengslum við væntanlega þýðingu á Paradís úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante, þar sem andlegur og táknrænn heimur kallast á við jarðbundna sýn listamannsins.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.
"*" indicates required fields