Hafnarborg merki

Hafnarborg

Sýning
07.03.26 - 25.05.26
Weronika Balcerak & Lukas Bury

Heiðvirðir einstaklingar

Sýningarstjóri
Aldís Arnardóttir & Hólmar Hólm
Salur
Aðalsalur

Sýningin hverfist um langvarandi og lítt rædd samskipti milli Póllands og Íslands í gegnum tíðina – sem hófust með viðskiptum löngu áður en Pólverjar urðu stærsti hópur innflytjenda á Íslandi. Frá Póllandi streymdu til dæmis kol, textíll, bílar, traktorar og Prince Polo mörgum áratugum áður en fólksflutningar tóku að móta íslenskt samfélag að því marki sem við þekkjum nú.

Titill sýningarinnar er sóttur í auglýsingu sem birtist í smáauglýsingablaði Tímans árið 1991: „Heiðvirðir einstaklingar frá Póllandi leita að sumarvinnu á Íslandi ‘91, svo sem í skógrækt.“ Þá fangar þetta samspil einlægni, bjartsýni og óljósrar myndar af áfangastaðnum viðvarandi spennu sem er hluti af því að færa sig á milli landa – þar sem von mætir óvissu.

Samhliða slíkum sögum af félagslegum tengslum varpar sýningin fram ýmsum spurningum: Geta sömu vörur skipað sér svipaðan sess í þjóðarsál tveggja landa þótt himinn og haf skilji þau að? Getur þjóð sem mótast hefur af miðstýrðu efnahagskerfi átt sambærilegar nostalgískar minningar um neysluvörur og þjóðfélag sem er byggt á vestrænum kapítalisma? Og hvernig vildi það til að fjölskylda íslensks kennara átti eins bíl og frændur okkar í Póllandi – sem var framleiddur innan efnahagslegs kerfis sem þótti „framandi“ hér á landi?

Listamennirnir Weronika Balcerak og Lukas Bury vinna með miðla eins og útsaum, vídeó og málverk en með því að sameina sögulegar heimildir við hugleiðingar um lífið á líðandi stundu setja þau þessi margslungnu menningartengsl í nýtt samhengi. Sýningin varpar þannig ljósi á hvernig hversdagslegir hlutir, vinnuafl og efnahagsleg tengsl hafa haft áhrif á Ísland og Pólland í nær heila öld – og dregur upp mynd af sambandi sem hófst löngu fyrir nútímafólksflutninga og mótar bæði löndin enn þann dag í dag.

Skráðu þig á póstlistann okkar

Fylgstu með því nýjasta sem er fram undan á safninu.

"*" indicates required fields

Bóka heimsókn