
Á sýningunni býður Ragna Fróða okkur inn í töfrandi heim mynstra, lita, forma og áferða. Heimur Rögnu er í senn kunnuglegur og framandi, nostalgískur og nýstárlegur. Upphafspunktur verkanna á sýningunni eru blekteikningar sem unnar eru í flæði og í beinu samtali milli undirmeðvitundar og handar. Í gegnum marglaga vinnuferli umbreytist hin óhefta lína frá handgerðri teikningu yfir í stafrænt útsaumuð verk sem birtast á mörkum hins óhlutbundna og fígúratífa. Verk Rögnu snúast um sköpunarferlið sjálft – samspil lita, áferða og sagna sem felast í mynstrum og táknum textílsins. Með því að sameina hefðbundið handverk og nútímatækni leitast Ragna við að víkka út mörk handverks, textílhönnunar og myndlistar.
Ragna Fróða (f. 1970) er myndlistarkona, sýningarstjóri og kennari. Ragna lærði fata- og textílhönnun í París á árunum 1992-1995 og nam síðan við textíldeild Myndlista- og handíðaskólans 1996-1998. Hún hefur starfað víða erlendis en síðastliðin fimmtán ár hefur hún búið til skiptis í New York, Berlín og Reykjavík og komið víða að verkefnum tengdum list, hönnun og menningu. Ragna var um árabil deildarstjóri textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík og formaður Textílfélagsins. Undanfarin ár hefur hún verið búsett í New York þar sem hún rekur eigin vinnustofu samhliða starfi sem framkvæmdastjóri Edelkoort Inc. og New York Textile Month. Hún hefur hlotið ýmsa styrki fyrir listræna starfsemi sína og framlag til lista og menningar. Verk hennar hafa verið sýnd á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum.
"*" indicates required fields