Í Hafnarborg er lífleg starfsemi þar sem gestir geta notið myndlistar, tónlistar og fjölbreyttra menningarviðburða. Safnið leggur líka áherslu á fræðslu og rannsóknir, sem dýpka skilning og upplifun á listinni.

Sýningardagskrá Hafnarborgar er fjölbreytt og spannar allt frá þjóðargersemum frumkvöðlanna til nýstárlegra og tilraunakenndra verka samtímalistamanna. Árlega eru haldnar 8–10 sýningar sem varpa ljósi á ólík sjónarhorn og stef í íslenskri myndlist.
Fyrirlestrar og leiðsagnir eru fastur hluti af dagskrá safnsins og skapa rými fyrir samtal um listina og samhengi hennar. Gestir fá þannig tækifæri til að hitta listamenn og sýningarstjóra, kynnast aðferðum þeirra og dýpka skilning sinn á myndlist og menningararfi þjóðarinnar.

Listasmiðjur
Listasmiðjur Hafnarborgar eru ætlaðar til að stuðla að sköpunargleði og kynnum almennings við myndlist. Efniviður og áherslur smiðjanna eru fjölbreyttar og tengjast oft sýningum sem standa yfir í Hafnarborg hverju sinni.
Á mínu máli
Á mínu máli er viðburðaröð sem miðar að því að auka aðgengi fólks með margs konar bakgrunn að Hafnarborg með því að bjóða gesti velkomna á ólíkum tungumálum. Smiðjurnar taka oft mið af menningarlegum hefðum og listamönnum úr ólíkum áttum. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði.
Sumarnámskeið
Á hverju sumri býður Hafnarborg upp á sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Áhersla er lögð á leik og sköpun þar sem grunnatriði myndlistar eru kynnt í gegnum leiðangra, athuganir og tilraunir. Unnið verður með ýmsa miðla – teikningu, málun og mótun – með það að markmiði að styrkja sjónræna skynjun, efla skapandi hugsun og styðja við persónulega tjáningu hvers og eins.
Rannsóknir
Hafnarborg hefur gefið út fjölda sýningarskráa, bóka og smárita frá stofnun. Útgáfurnar standa sem sjálfstæðar heimildir löngu eftir að sýningunum lýkur og eru framlag til fræðilegs samtals um margvísleg viðfangsefni safnsins.
Rannsóknir á ferli Eiríks Smiths
Hafnarborg hefur sinnt umfangsmiklum rannsóknum á ferli Eiríks Smith. Árið 1993 skrifaði Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur grein í afmælisrit Hafnarborgar þar sem hann skoðaði gjöf Eiríks til safnsins árið 1990 og setti verk hans í listrænt samhengi. Fleiri rannsóknir á verkum Eiríks hafa fylgt í kjölfarið og hefur Hafnarborg gefið út nokkur rit um feril listamannsins.
Árið 2008 var hafist handa við viðamikla greiningu á öllum verkum Eiríks í safneign Hafnarborgar, sem Aðalsteinn Ingólfsson vann einnig. Rannsóknarniðurstöðurnar eru aðgengilegar almenningi í Sarpi. Í kjölfarið voru settar upp 5 sýningar sem hver um sig skoðaði ákveðið tímabil á ferli listamannsins, undir sýningarstjórn Ólafar K. Sigurðardóttur. Haustið 2015 var svo gefin út vegleg yfirlitsbók með myndum og texta um ævistarf Eiríks.

