Ummerki vatns

Sumarsýning Hafnarborgar 2016

Föstudaginn 27. maí kl. 18 verður sumarsýning Hafnarborgar, Ummerki vatns, opnuð. Það er samsýning sex listamanna sem öll eiga það sameiginlegt að styðjast við ummerki vatns í verkum sínum þar sem litur, vatn og uppgufun þess er meðal annars til umfjöllunar. Listamennirnir finna sköpun sinni farveg í einhverskonar flæði og nota til þess ólíka miðla.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru þau Anna Rún Tryggvadóttir, Florence Lam, Harpa Árnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, John Zurier og Margrét H. Blöndal. Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Birgir Snæbjörn Birgisson, myndlistarmaður.

 

Anna Rún Tryggvadóttir (f. 1980) útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2004 og lauk mastersnámi við Concordia háskólann í Montreal árið 2014. Innsetningar hennar eru oft og tíðum helgaðar kerfum sem stuðla að hreyfingu og umbreytingu ólíkra efna.

Florence Lam (f.1992) fæddist í Vancouver í Kanada en ólst upp í Hong Kong. Árið 2014 lauk hún BA gráðu í myndlist frá Central Sait Martins Collage of Art & Design og stundar nú meistaranám við Listaháskóla Íslands. Í verkum sínum tekur hún sér stöðu stjórnanda þegar á sama tíma hún hefur enga stjórn á efninu sem hún vinnur með og dregur þannig fram grunneiginleika efnisins.

Harpa Árnadóttir (f.1965) lagði stund á myndlist við Myndlista- og handíðaskólann og síðan framhaldsnám við Konsthogskolan Valand í Gautaborg. Verk Hörpu fela í sér tilraunakennda rannsókn á yfirborði og gegnsæi en grunnur margra verka hennar er hugmyndin um að líta megi á málverk sem sjónræna ljóðlist.

Hulda Stefánsdóttir (f. 1972) lærði myndlist á Íslandi og í New York. Myndlistarferill hennar spannar um tvo áratugi, auk þess sem hún hefur kennt og gengt stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands. Verk Huldu virðast í fyrstu sýn vera einföld þannig að áferð yfirborðsins verður ekki aðeins að bakgrunni heldur líka að áberandi aðalatriði málverksins.

John Zurier (f. 1956) býr og starfar í Californíu. Hann málar óhlutbundin, næstum einlit málverk sem fanga eiginleika ljóss og veðurs minninga hans um einstaka staði og tíma.  John hefur heimsótt Ísland töluvert á undanförnum árum þar sem Íslensk náttúra og birta hefur verið honum innblástursefni.

Margrét H. Blöndal (f.1970) lauk námi frá fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993 og meistaraprófi í skúlptúr frá Rutgers háskólanum í New Jersey. Vatnslitaverk Margrétar bera keim af því viðkvæmislega jafnvægi sem hún leitar milli hluta og rýmis.

 

 

Hugsanir lagðar í bleyti

Þú setur saman tvo hluti sem ekki hafa verði settir saman áður. Og heimurinn breytist. Fólk tekur ef til vill ekki eftir því fyrst um sinn, en það skiptir ekki máli. Heiminum hefur engu að síður verið breytt.

Julian Barnes, Levels of Life, bls. 3, Vintage 2014
Þráin eftir betra lífi, breyttum og örlítið fallegri heimi er rík. Leitin að fullkomnun er þráðurinn sem við spinnum og verðum að passa að slitni ekki. En hvar leitum við betra lífs nema í okkur sjálfum og í því sem við upplifum, njótum og geymum innra með okkur í formi minninga. Minningarnar gera okkur svo að þeim ólíku einstaklingum sem við erum. Þær ráða því hversu skapandi við erum og hversu móttækileg við erum fyrir því sem skapað er.

Að leggja eitthvað í bleyti getur haft tvíþætta merkingu. Annarsvegar að láta eitthvað gerjast eða mótast, eins og til dæmis hugsanir. Hins vegar að bjarga einhverju með því að leggja það í bleyti, eins og blettóttann dúk sem liggja þarf í bleyti um tíma uns björgunaraðgerðin hefst.

Titill þessarar greinar vísar til þess að hugsanir og hugmyndir séu lagðar í bleyti. Þær flæði um fyrirfram áætlaðan flöt eða rými uns vatnið hættir að renna, þornar, gufar upp og skilur eftir sig táknmyndir eða tálmyndir hugsana, drauma og tilviljana. Er flæðið varanlegt? Hættir það þegar vatnsins nýtur ekki lengur við? Tekur þá myndverkið við og flæði hugsana þess sem á það horfir. Er hægt að skrúfa fyrir flæðið þegar það hefur á annan hátt hafist? Eða frysta augnablikið?

Er bleytt upp í öðru og meira þegar vatn flæðir, um gefinn flöt eða rými, leitar sinnar leiðar og staldrar ekki við fyrr en ákveðnu jafnvægi hefur verið náð? Hvenær verður hugsunin til? Hvenær finnur hugsunin sér form og farveg, er það með tilkomu flæðisins sjálfs eða verður myndin fyrst til þegar áhorfandinn horfir á verkið og speglar í því sinn raunveruleika?

Listamennirnir sem til hafa verið kallaðir eru þau Anna Rún Tryggvadóttir, Florence Lam, Harpa Árnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, Margrét H. Blöndal og John Zurier. Segja má að hópurinn hafi valið sig sjálfur – runnið saman eftir samtal og umhugsun sýningarstjóranna. Verk íslensku listamannanna, Önnu, Hörpu, Huldu og Margrétar hafa ekki áður verið sýnd saman og í því samtali sem nú verður gert. Florence Lam er fædd í Kanada og stundar um þessar mundir meistaranám í Listaháskóla Íslands. John Zurier er búsettur í Kaliforníu en heillaðist af Íslandi fyrir nokkrum árum og er tíður gestur. Öll eiga þau sameiginlegt að finna sköpun sinni farveg í einhverskonar flæði og nota til þess ólíka miðla. Sú fegurð og fullkomnun sem raungerist í verkunum byggir á samruna og umbreytingu efnanna þegar þeim er teflt saman. Áreynsluleysi, ákveðin mildi og annar skilningur á tíma verður til, við getum sagt með öðrum orðum að heimurinn hafi breyst.

Því er staðfast haldið fram að verk okkar endurspegli á einhvern hátt  hugsanir okkar. Það er gaman að velta fyrir sér hvort sama eigi við um upplifunina, að hún geti náð að hafa áhrif á hugsanir og þar með gjörðir okkar sem njótum verkana.

Eitthvað í þessa veru flæðis og hinnar endalausu leitar að fullkomleika var útgangspunktur þessarar sýningarhugmyndar. Okkur er boðið að  gleyma okkur um stund í vellíðandi tilfinningu og hugsunum okkar og verkum þessara skapandi listamanna. Við þökkum listamönnunum fyrir leiðsögnina, draumana og hugsanirnar. Látum verk þeirra segja okkur frá og skýra í hverju sköpunin er fólgin, er það vatnið og ummerki þess eða flæðið eða hvort tveggja, með þátttöku okkar sem gerir heiminn örlítið fallegri um stund?

Berlín, á páskum 2016
Birgir Snæbjörn Birgisson