Ráðhildur Ingadóttir hefur lengi fengist við hið óendanlega og eilífa í verkum sínum. Með sýningu sinni í Hafnarborg dregur hún upp svipmyndir af eigin heimi með upptökuvél, þar sem hún sækir í eigin reynslu og dregur fram minningar. Við greinum einstakling sem rennir augum sínum yfir fjölda upplifana og ristir fortíðina í nútíðina. Listamaðurinn er í sínum eigin heimi, á þeim stað þar sem hið lítilfjörlega mætir hinu stórmerkilega.
Ráðhildur Ingadóttir er fædd í Reykjavík árið 1959. Hún nam myndlist í Englandi á árunum 1981–1986. Ráðhildur hélt sína fyrstu einkasýningu í Nýlistasafninu árið 1986 og hefur síðan sýnt á Íslandi og í Evrópu í ríkum mæli, auk þess að starfa sem sýningarstjóri hér á landi og erlendis. Ráðhildur var gestakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands á árunum 1992–2002 sem og við Konunglegu myndlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Hún var stjórnarmeðlimur í Nýlistasafninu frá 2000–2002. Ráðhildur var listrænn stjórnandi Skaftfells – miðstöðvar myndlistar á Austurlandi 2013 og 2014. Hún hefur hlotið starfslaun, verkefnastyrki og ferðastyrki á Íslandi og í Danmörku. Ráðhildur býr og starfar í Kaupmannahöfn, á Seyðisfirði og í Reykjavík. Verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.