Hvað er hér, hvað er heima, hvað er nærumhverfi eða -samfélag? Allt eru þetta afstæð hugtök sem miðast við stöðu eða samband einstaklingsins við umheiminn. Við staðsetjum okkur á landakorti, búum til heimili og lærum að þekkja aðstæður, myndum tengsl og skynjum okkur sem hluta af heild. En þetta sjónarhorn – líkt og allt annað – getur tekið breytingum, hvort sem er á ferðalagi eða við búferlaflutninga, til dæmis.
Á sýningunni getur að líta verk úr listaverkasafni Uppsala, vinabæjar Hafnarfjarðar, sem staðsettur er í 2085 kílómetra fjarlægð héðan, eins og stendur á götuskilti við Ráðhús bæjarins, sem vísar til 10 vinabæja Hafnarfjarðar. Verkin bera vott um lífið í Uppsölum, umhverfi bæjarins og sögu en þá kann margt í okkar eigin lífi og umhverfi að minna á hinn sænska veruleika. Enda er margt sem sameinar okkur eða er líkt á norðurslóðum: svipað loftslag og kaldar nætur, gróður og dýralíf, viðhorf og gildismat, að ógleymdum hinum sameiginlega menningararfi Norðurlanda.
Þá er markmiðið með sýningunni, sem kemur hingað til Hafnarfjarðar, að draga fram tengslin á milli vinabæjanna og bjóða gestum að ferðast í huganum til Uppsala. Þá sjáum við eigin veruleika og heim þeirra sem þar búa frá nýju sjónarhorni, frá afstæðum punkti sem fyrirfinnst hvorki þar né hér, heldur verður til innra með okkur, í eigin hugskoti. Því að það er ekkert sem tengir okkur eins og að setja okkur í spor annarra – sjá og skilja lífið í gegnum listina.