Rósa

Sigga Björg Sigurðardóttir

Í Sverrissal Hafnarborgar sýnir Sigga Björg Sigurðardóttir innsetningu þar sem við kynnumst Rósu, uppruna hennar og sögu. Innsetningin samanstendur af teikningum, skúlptúrum og myndbandsverki með ágengri hljóðmynd. Rósa er af óljósri tegund en glímir við mennskar tilfinningar og aðstæður. Við skynjum trega hennar og örvæntingu um leið og við sjáum hana þroskast og bókstaflega móta sjálfa sig. Einmanaleiki hennar er áþreifanlegur og sorg hennar augljós. Að lokum virðist sem heimur hennar eyðist á meðan hún leikur undir á hörpu, með samblandi af trega og kæruleysi.

Teikningar Siggu Bjargar í rýminu eru bæði unnar fyrirfram en einnig skapaðar á staðnum og leggur listakonan áherslu á að tengja saman heim myndbandsins, teikninganna og rýmisins og skapa úr því heild. Hluti þeirra teikninga sem hér eru sýndar urðu til við undirbúning sýningar í Teikningasafninu í Laholm í Svíþjóð nú í haust. Sigga Björg er enda vön að láta verk sín renna aftur til heildarinnar eftir sýningar og skiptast síðan upp í nýja hluta, allt eftir því sem fyrirliggjandi verkefni krefst. Myndheimur hennar hangir allur saman og hægt er að kalla fram margar ólíkar frásagnir.

Persónurnar sem mæta okkur eru samansafn óhaminna tilfinninga, sem þær tjá með oft og tíðum grófum hætti. Liturinn, frumefni þeirra, lekur og slettist um salinn við mótun þeirra. Persónurnar sem eru hvorki menn né dýr sýna dýrslegt eðli mannsins og mannlegt eðli dýrsins. Tilfinningarnar sem ráða för eru hráar og villtar, óbeislaðar og stundum svolítið dónalegar. Atgangurinn er hryllilegur og fyndinn í senn.

Hreyfanlegir skúlptúrarnir fara með aðalhlutverk í hreyfimyndinni um Rósu og eins og annað sem Sigga Björg skapar er það tilviljunin í ferlinu sem ræður niðurstöðunni og sköpunarferlið sjálft er þannig hluti af verkinu. Bæði persónurnar og sögurnar af þeim verða til um leið og þær eru skapaðar. Ferlinu er ekki stýrt – það er ekkert handrit – tilviljanir og stemmning  skapa útlit persóna og tengingar milli þeirra og frásagnanna, sem fyrir vikið byggjast á hendingu frekar en fyrirfram ákveðinni framvindu. Sigga Björg segist sleppa fram af sér beislinu og gjarna koma sjálfri sér á óvart í verkunum. Leikgleði hennar skilar sér til okkar áhorfenda, bæði í gegnum myndmálið en einnig í hljóðmynd verksins.

Líkt og í tilfinningum persónanna eru andstæður í handbragði og verklagi. Sigga Björg vinnur bæði hratt og hægt, af vandvirkni og nákvæmni en einnig með ærslagangi og leyfir óhemjunni að taka völdin. Þetta óbeislaða ferli er vel sýnilegt í verkunum og tilfinningasveiflurnar áþreifanlegar í frásögninni.

Sigga Björg Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 1977. Hún útskrifaðist frá LHÍ 2001 og lauk síðan MFA-gráðu í myndlist frá Glasgow School of Art 2004. Sigga Björg hefur sýnt ein og í samstarfi við aðra víða um heim og verk hennar eru í eigu safna hér á landi og erlendis.