Sýningin Með augum Minksins fjallar um hönnunarferlið frá hugmynd til tilbúinnar vöru. Á sýningunni, í Sverrissal, er varpað ljósi á hönnun og þróun ferðavagnsins Minksins sem dæmi um íslenska hönnun og framleiðslu þar sem hönnunarhugsun er fylgt frá upphafi til enda. Hugmyndin að útliti og gerð Minksins er sótt allt aftur til fjórða áratugarins til bandaríska ferðavagnsins „The Teardrop Trailer“. Hugmyndina fengu þeir Ólafur Gunnar Sverrisson og Kolbeinn Björnsson fyrir um fjórum árum. Í samvinnu við sænsku hönnunarstofuna Jordi Hans Design var hugmyndin þróuð áfram og unnin þar af hönnuðinum Kaesar Amin. Hönnun innviða var svo í höndum Emilíu Borgþórsdóttur en heildarhönnun stýrði Ólafur Gunnar Sverrisson.
Á sýningunni má finna allt frá frumskissum til teikninga af lokafrágangi, auk dæma um efnisval og tæknilegar úrlausnir. Þar má glöggt sjá hvernig hugsa þarf um hvert smáatriði í hönnunarferlinu og gefa lausnum tíma til þróunnar. Mikilvægur þáttur í hönnun Minksins er þverfagleg samvinna og samtal fagfólks á ólíkum sviðum þar sem hver og einn leggur sitt til hugmyndavinnunnar og heildarferlisins. Annað mikilvægt atriði sem hefur átt leiðandi þátt í útliti, gerð og hugmyndafræði Minksins eru tengsl mannsins og návígi hans við náttúruna. Þannig vísar nafn sýningarinnar til hringlaga augna á hlið ferðavagnsins og það hvernig ferðalangurinn getur skoðað afmarkað sjónarhorn á íslenska náttúru – séð íslenska náttúru með augum Minksins.
Sýningarstjórar og hönnuðir sýningar eru Elísabet V. Ingvarsdóttir og Magnús Ingvar Ágústsson.