Sýningin fjallar um málverkið og forsendur þess í því eftir-miðla umhverfi sem einkennir list samtímans. Það eru margskonar ástæður fyrir því að málverkið blómstrar í þessum nýju aðstæðum og sýningin er tilraun til þess að fjalla um nokkrar þeirra. Hún er tilraun til að hugsa um málverkið, ekki útfrá miðli (í hefðbundnum skilningi) heldur sem; annarsvegar ákveðna aðferð við að sjá, og hinsvegar ákveðna aðferð við myndræna framsetningu sem ekki er upptekin af efnislegum eða sögulegum eiginleikum miðils.
Verkin á sýningunni eru valin með það í huga að gefa áhorfandanum tækifæri til að velta málverkinu fyrir sér útfrá þessu nýja samhengi.
Það að sjá er alltaf það að sjá frá ákveðnu sjónarhorni. Það að sjá felur því í sér ákveðna skynræna / vitsmunalega afstöðu. Málverkið sem aðferð við að sjá hefur hér þá merkingu að vera ákveðin afstaða, ákveðin aðferð við að greina og gera skiljanlegar þær upplifanir sem við verðum fyrir. Skynjun er ekki hrein, heldur er hún alltaf undir áhrifum frá þekkingu, viðhorfum og hugmyndum. Málverkið er staður þar sem skynjun okkar tekur á sig efnislega mynd.
Sem aðferð við myndræna framsetningu hefur málverkið komið aftur til sjálfs sín á nokkuð þversagnarkenndan hátt. Sem framsetningarmáti einkennist málverkið bæði af áhuga á og skeytingarleysi um, tíma, stíl og þróun miðilsins. Þessi framsetningarmáti er ekki bundinn af hugmyndum um framþróun eða sögu, en er þrátt fyrir það eða meðfram því upptekinn af aðferðum sínum.
Það er ekki neinn einn samnefnari með þeim listamönnum sem taka þátt í sýningunni en með því að stefna þeim saman fæst ákveðin mynd af málverki, mynd sem er ekki bundin við miðil.
Listamenn á sýningunni eru Fritz Hendrik Berndsen, Hildur Bjarnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurður Guðjónsson og Þorgerður Þórhallsdóttir. Sýningarstjóri er Jóhannes Dagsson en hugmynd hans að sýningunni var valin úr innsendum tillögum síðastliðið haust, þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu í safninu 2017.
Fritz Hendrik Berndsen býr og starfar í Reykjavík. Fritz útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Fritz hefur sýnt á 8 samsýningum og haldið 3 einkasýningar. Verk Fritz samanstanda af innsetningum, málverkum, skúlptúrum, ljósmyndum og vídeó.
Hildur Bjarnadóttir býr og starfar í Reykjavík og í Flóahrepp. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið1997 með MFA próf frá Nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Hún lauk doktorsnámi í myndlist frá Listaháskólanum í Bergen árið 2017. Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim þar má nefna; Vistkerfi Lita í Vestursal Kjarvalsstaða 2016, Colors of belonging í Bergen Kjøtt í Noregi 2015, Subjective systems í Kunstnerforbundet í Oslo og Kortlanging lands í Hverfisgallerí árið 2014 og Samræmi í Hafnarborg ásamt Guðjóni Ketilssyni, 2011.
Hulda Stefánsdóttir útskrifaðist frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997 og lauk MFA gráðu árið 2000 frá School of Visual Art í New York. Myndlistarferill hennar spannar um tvo áratugi, auk þess sem Hulda gegndi stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands frá 2008 til 2016. Hulda hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér á Íslandi og vestan hafs, þar sem hún var búsett til ársins 2006. Síðasta einkasýning hennar Færsla / Shift var haldin í BERG Contemporary á Listahátíð í Reykjavík vorið 2016. Verk hennar eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Listasafns Háskóla Íslands.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir útskrifaðist með M.A. gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í myndlist úr sama skóla árið 2007, en hafði áður lokið B.A. gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum, t.d. einkasýningar í Hafnarborg, Gallerí Ágúst og Cuxhavener Kunstverein, þátttöku í alþjóðlega tvíæringnum Prague Biennale, auk fjölda samsýninga innanlands og erlendis. Undanfarin ár hefur hún bæði starfað við eigin myndlistarverkefni og sem annar helmingur tvíeykisins Hugsteypunnar.
Jakob Veigar Sigurðsson er uppalinn í Hveragerði. Hann er byggingatæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann stundaði listnám við Cyprus College of Art á Kýpur. Hann útskrifaðist með BAgráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2016 og stundar núna nám við Akademie der bildenden Künste Í Vín. Meðal sýninga sem Jakob hefur staðið fyrir eða tekið þátt í má nefna; Plan-b artfestival í Borgarnesi, og Art Diagonale, samsýning á Korpúlfsstöðum 2017, Málað í gegnum gler, innsetning og málverk í gróðurhúsi í Hveragerði 2016, og Málverk uppá fjalli, málverkasýning í yfirgefinni Lóranstöð á Reynisfjalli 2015.
Magnús Helgason útskrifaðist frá AKI í Hollandi 2001. Magnús hefur aðallega starfað við tilraunakennda kvikmyndagerð og málverkasmíð. Hann sýndi kvikmyndirnar sínar meðfram hljómleikum tónlistarmanna víða um heim á árunum 2003-2010 en hefur undanfarin ár helgað sig málverkagerð, haldið 12 einkasýningar og tekið þátt í nokkrum fjölda samsýninga, þar má nefna: D-17 í Listasafni Reykjavíkur, Nýmálað í Listasafni Reykjavíkur, Islands, Havana galerie Zurich og Plop plop ég er sápukúlur í Listamenn Gallerí, Reykjavík.