Gunnar Örn Gunnarsson hélt sína fyrstu einkasýningu í Unuhúsi árið 1970 og kom með áberandi hætti inn í myndlistarsenuna á Íslandi í byrjun áttunda áratugarins, þar sem kraftmikil verk hans vöktu fljótt athygli á ungum sjálfmenntuðum listamanni.
Strax á fystu sýningu sinni leggur Gunnar Örn upp með tilvistarlegar spurningar um knýjandi hraða og firringu nútímasamfélagsins. Tilvist mannsins var honum stöðug uppspretta og viðfangsefni allan hans feril, glíma mannsins við sjálfan sig – það að vera til í heiminum. Allt höfundarverk Gunnars Arnar einkennist af andlegri leit hans á þessu ferðalagi, þar sem striginn bergmálar persónulega upplifun listamannsins.
Gunnar Örn var gríðarlega afkastamikill listamaður og eftir hann liggur mikill fjöldi verka: teikningar, einþrykk, málverk og skúlptúrar, vatnslitaverk auk verka sem unnin eru með blandaðri tækni. Á sýningunni verða sýnd verk frá öllum ferli Gunnars Arnar, sem spannar tæplega fjóra áratugi, en á þeim tíma gekk hann í gegnum nokkrar umbreytingar og stokkaði reglulega upp viðfangsefni sín.
Gunnar Örn Gunnarsson (1946-2008) lærði á selló í Kaupmannahöfn veturinn 1963-64 og sótti einnig teikninámskeið hjá Svend Nielsen í Danmörku en var að öðru leiti sjálfmenntaður í myndlist. Gunnar Örn var virkur í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem verk hans voru meðal annars sýnd í Danmörku, Tókýó, Búdapest og í galleríi Achims Moeller í New York. Gunnar Örn var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1988. Verk eftir listamanninn eru í eigu fjölmargra safna á Íslandi en einnig má finna verk hans í Guggenheim-safninu í New York, samtímalistasafninu Sezon (Seibu) í Tókýó og Moderna-safninu í Stokkhólmi.
Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.