Í sátt við efni og anda

Eiríkur Smith

Ferill Eiríks Smith (1925-2016) var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum. Þar er maðurinn oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð Í gegnum tíðina tók nálgun hans miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn leitaði meðvitað á nýjar slóðir.

Líkja má listferli Eiríks við pendúl sem sveiflast milli tveggja póla. Hann leitar bæði fanga í samtali við hið huglæga og hið hlutlæga og á síðari hluta ferilsins koma tímabil þar sem hann fer bil beggja. Í þeim má finna sátt listamannsins við þá sannfæringu að lífinu sé best lifað í sátt við hvort tveggja, efni og anda.

Eiríkur nam myndlist í kvöldskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem og í Handíða- og myndlistaskóla Íslands. Hann nam teikningu í einkaskóla Peters Rostrup-Bøyesens, Kaupmannahöfn, og í Académie de la Grande Chaumiére, París. Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Eirík og af því tilefni verða sýnd valin verk frá öllum ferli hans, auk eldri teikninga frá námsárum hans í Kaupmannahöfn og París.

Eftir Eirík liggur gríðarlegur fjöldi verka og eru rúmlega 400 þeirra varðveitt í Hafnarborg en listamaðurinn færði safninu veglega listaverkagjöf árið 1990. Þá hefur jafnt og þétt verið bætt við safneignina með það að markmiði að í Hafnarborg sé varðveitt safn verka sem gefur góða yfirsýn yfir feril listamannsins.

Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.