Heimurinn án okkar

Haustsýning Hafnarborgar 2015

„Sólin og tunglið eru heimurinn okkar, þú og ég erum ekki lengur til, aðeins eilífðin og leið okkar til stjarnanna.“

-Johannes Molzahn, „Das Manifest des absoluten Expressionismus“, Der Stum, 1919.

 

Alheimurinn og hinar ýmsu víddir hans, sýnilegar jafnt sem ósýnilegar, hafa verið viðfangsefni listamanna á ólíkum tímum. Uppgötvanir og framfarir í geimvísindum og tækni samhliða hugmyndum mannsins um tilvist sína gefa ímyndunaraflinu lausan taum. Hugmyndir um fjórðu víddina leiða okkur út fyrir takmörk hins sýnilega og gefa tilefni til vangaveltna um tíma og rúm. Fjarlægðir, línur, ljósgeislar, margflötungar, horn og teningar verða birtingarmyndir skynjanlegs rúmtaks þar sem massi og kraftur koma saman.

Mynd okkar af heiminum er afstæð og persónuleg og markast bæði af vísindalegri þekkingu um hann, almennum hugmyndum og skynjanlegum fyrirbærum. Þannig búum við til okkar eigin sýn á heiminn, ýmist sem afmarkað svæði eða heild, meðvituð um takmörk okkar til þess að sjá og skynja heildarmyndina. Með því að rannsaka og velta upp málum frá ólíkum hliðum má líta á heimspekina sem tilraun til að skilja veruleikann og með sömum rökum er myndlistin tæki til að myndgera hann.

Á sýningunni Heimurinn án okkar eru leiddir saman listamennirnir Björg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Finnur Jónsson, Gerður Helgadóttir, Marta María Jónsdóttir, Ragnar Már Nikulásson, Steina og Vilhjálmur Þorberg Bergsson. Listamennirnir eru af ólíkum kynslóðum en eiga það sameiginlegt að vinna með þessar hugmyndir í verkunum á sýningunni en nálgast þær á ólíkan hátt í mismunandi miðla. Í verkum þeirra er varpað ljósi á ákveðna þætti alheimsins hvort sem um er að ræða nærumhverfi eða víðara samhengi, micro eða macro. Þannig eru hinar ýmsu víddir alheimsins afhjúpaðar um leið og leitað er samfellu og heildar.

Í riti sínu Gagnrýni verklegrar skynsemi talar Immanuel Kant (1724-1804) um að stjörnuhimininn hefjist með því rými sem maðurinn tekur með stöðu sinni í heiminum og víkki út tengsl við „óendanlega stærð veralda á veraldir ofan og kerfa á kerfi ofan, og í óendanlegan tíma reglubundinnar hreyfingar þeirra, upphaf og endurtekningu.” Skynjun mannsins á tíma og rúmi var einnig meðal viðfangsefna franska heimspekingsins Henri Bergson (1859-1941). Hann leit svo á að frelsi til að hugsa út fyrir ramma hins fyrirframgefna byggi í sál listamannsins enda þótt rammi rökhyggjunnar væri stöðugt að verki og markaði lífinu bás. Að hans mati er enginn tími til án vitundarinnar og hann skiptir tímaskynjun mannsins í tvennt; mælanlegan ytri tíma, þar sem tímaskynjunin er eins og línulegt ferli og sálfræðilegan innri tíma sem byggir á reynslu mannsins – líðandina (la durée), sem er samfellt flæði „rauntíma”. Skrif hans um líðandina og samtengingu við lífsþróttinn (élan vital), höfðuðu sérstaklega til listamanna framúrstefnuhreyfinga í Evrópu í upphafi 20. aldar, t.d. kúbista og fútúrista.

Finnur Jónsson (1892-1993) er sá íslenski listamaður sem einna fyrst túlkaði hugmyndir um alheiminn í framúrstefnulegum verkum sínum frá 3. áratug tuttugustu aldar. Hann var við nám í Danmörku og Þýskalandi á árunum 1919-1925, þar sem hann var í beinum tengslum við hóp framúrstefnulistamanna í Der Sturm  hreyfingunni. Í verkum Finns frá þessum tíma, sem brutu blað í íslenskri listasögu, má greina áhrif framúrstefnu sem hann vann úr á persónulegan hátt. Í málverkinu Óður til mánans frá árinu 1925 er sjónarspil og seiðkraftur himintunglanna undirstrikaður með gulli og silfri sem gæðir verkið óhlutstæðri vídd. Leiftrandi himinhvolfið og sporbaugaform birtust síðan aftur á sjöunda og áttunda áratugnum í verkum eins og Geimurinn og Halló geimur frá árinu 1962, og Andrómeda frá árinu 1975.

Líkt og í verkum Finns koma fram í verkum myndhöggvarans Gerðar Helgadóttur (1928-1975) frá sjötta áratug tuttugustu aldar greinilegar skírskotanir í alheimsvíddir. Hugmyndir um rými, form og rúmtak, og þá krafta sem búa í alheiminum eru inntak verka hennar frá þessum tíma, eins og sjá má í fíngerðum teikningum, og víraskúlptúr án titils. Í verkinu Oktava frá 1958 gætir marglaga trúarlegra tenginga í formi og inntaki. Marglitir glersteinar sem Gerður fellir inní víravirkið í verkinu Festing frá 1956 taka áhorfandann með sér á flug um himinhvolfið.

„Ég kalla mína list samlífrænar víddir”, segir Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937). Í kosmískum málverkum sínum þar sem hnettir, sólir og frumukennd form svífa um í ómælisvíddum himingeimsins túlkar Vilhjálmur tengsl ýmissa lífssviða þar sem ljós og myrkur afhjúpa samband við stærri og smærri heima í „takmarkalausu orkulífrými”. Allt frá hinu smæsta til hins stærsta í veröldinni verður að persónulegu myndmáli Vilhjálms sem birtist í hárfínum blæbrigðum ljóss og skugga eins og sjá má í nýlegum verkum hans Hringrásakrossmót og Hringrása vog.

Í myndbandsverkum og innsetningum sínum beitir Steina (1940) sjónarhorni sem er líkt og handan mannlegrar skynjunar, þar sem stöðugt er reynt á mörk miðilsins til hins ítrasta. Hún sækir myndefni oft og tíðum í krafta náttúrunnar þar sem hreyfing og hljóð kallast á. Í verkinu Sægræn veröld/Emerald world úr seríunni …Of the North, kallar hringsnúningur tölvugerðs hnattar fram vísanir í himintungl og ómælisvíddir sem spanna allt frá því smæsta og smágerðasta; frá örlífverum og kristöllum plöntufrumna til hins stóra og víðáttumikla. Myndin flýtur um og hringsnýst og augað nemur síbreytilegt mynstur hnattarins. Á sama tíma skapast ímyndir stórbrotinna, fjarlægra vetrarbrauta og himintungla en víðátta, fegurð, hreyfing og taktur mynstranna sem mótuð eru af náttúrunni og náttúrulegum ferlum skapa samhljóm í takti lífsins.

Strendir kristallalagaðir steinar í grafíkmyndröðinni Óskasteinar frá 1986 eftir Björgu Þorsteinsdóttur (1940) svífa rétt við yfirborðið og kalla fram hugmyndir um geimsteina. Framandleiki lita, forms og efnis steinanna vísar til frumkrafta sköpunar, umbreytinga og hreyfinga í himinhvolfinu.

Í verkum Brynhildar Þorgeirsdóttur (1955) Meteors/Geimsteinar, sem eru unnin á árunum 1998 og 1999, koma saman ólíkir kraftar sem vísa bæði til skynjanlegs massa steypu og glers og hugmyndafræðilegra tilvísana í himingeiminn líkt og steinarnir hafi fallið óvænt til jarðar í gegnum lofthjúpinn. Þannig mynda þeir jarðsamband um leið og þeir vísa útí sólkerfið þar sem grjót og málmhnullungar svífa um innan um smástirni, tungl og halastjörnur.

Í nýjum málverkum Mörtu Maríu Jónsdóttur (1974) leita geislar, línur, hvarfpunktar, kristalform og svífandi hnettir út úr myndfletinum yfir í óræðar víddir og rými himingeimsins og leiða okkur út fyrir hið kunnuglega og fyrirsjáanlega.  Líflegt línuspil og leikur með fjarlægð og nálægð, stækkun og smækkun kallar um leið fram tilfinningu fyrir umbreytingu og sköpun.

Vélahlutir, mótorar og jafnvel úreltir tæknihlutir öðlast nýtt hlutverk í meðförum Ragnars Más Nikulássonar (1985). Hann notar gjarnan einfaldan samsettan tæknibúnað, þar sem unnið er með hljóð, ljós og hreyfingu. Rannsókn á samhengi hlutanna í nútíð og fortíð vísar til vangaveltna framúrstefnumanna á fyrri hluta tuttugustu aldar um rými og víddir. Í verkinu Trop op 4.0, sem Darri Úlfsson er meðhöfundur að, vinnur Ragnar Már með litahring bæði á filmu og prenti til þess að framkalla sjónræna rýmisblekkingu, þar sem ljós og speglun mynda víbrandi mandöluform úr tvívíðum kyrrstæðum fleti.

Tilvist mannsins, smæð hans í alheiminum og tengsl við alheimskerfin er leiðarstefið í verkum listamannanna á sýningunni Heimurinn án okkar. Enda þótt maðurinn sé ekki sýnilegur þá undirstrika þau hvernig vitundin um hið smæsta kallast á við það stærsta í rúmi og tíma og þann streng sem liggur í gegnum alla lífskeðjuna.

 

 

Björg Þorsteinsdóttir (1940) lauk teiknikennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands árið 1964. Hún stundaði einnig nám í grafík við sama skóla og málun við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún var um skeið við nám við Staatliche Akademie der bildenden Künste í Stuttgart. Á árunum 1971 – 1973 var hún styrkþegi frönsku ríkisstjórnarinnar og lagði stund á grafík við Atelier 17 og við École Nationale Superieure des Beaux Arts í París.

Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955) útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978. Hún stundaði nám við Gerrit Rietveld Academie í Hollandi á árunum 1979 – 1980 og Orrefors Glass School í Svíþjóð árið 1980. Hún lauk MFA námi frá California Collage of Arts and Crafts í Oakland í Bandaríkjunum árið 1982. Á árunum 1982, 1998 og 1999 sótti hún nám við Pilchuck Glass School í Wasington í Bandaríkjunum.

Finnur Jónsson (1892–1993) lauk sveinsprófi í gullsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1919 og sótti teiknitíma hjá Ríkharði bróður sínum og Þórarni B. Þorlákssyni. Hann lærði teikningu hjá Viggó Brandt í höggmyndadeild Statens Museum for Kunst og hjá Carl Meier í Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn, sem og listmálun í skóla Olafs Rudes á árunum 1919-1921. Hann flutti til Berlínar og stundaði um tveggja mánaða skeið nám í einkaskóla Karls Hofers. Árið 1922 fór hann til Dresden í Þýskalandi þar sem hann nam við deild erlendra stúdenta hjá Academie der Schönen Künste meðal annars hjá Oscar Kokoschka. Á árunum 1922 – 1925 var hann við nám í Der Weg, Schule Für Neue Kunst.

Gerður Helgadóttir (1928–1975) stundaði nám við Handíða- og myndlistaskóla Íslands á árunum 1945 – 1947. Á árunum 1947 – 1949 nam hún við Accademia di Belle Arti í Flórens á Ítalíu. Hún var við nám í París 1949 – 1951 við Académie de la Grande Chaumiére og í einkaskóla myndhöggvarans Ossip Zadkine.

Marta María Jónsdóttir (1974) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1998 og MFA-námi frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún stundaði einnig nám í teiknimynda- og hreyfimyndagerð við London Animation Studio, í Central Saint Martins College of Art and Design og lauk Postgraduate Diploma í Character Animation árið 2004.

Ragnar Már Nikulásson (1985) útskrifaðist úr MA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og lauk BA-prófi í grafískri hönnun frá sama skóla árið 2010.

Steina (1940) býr og starfar í Santa Fe í Bandaríkjunum. Hún stundaði nám í tónfræði og fiðluleik. Ráðuneyti menningarmála í Tékkóslóvakíu styrkti hana til framhaldsnáms í fiðluleik við Tónlistarháskólann í Prag á árunum 1959-1964, þar sem hún kynntist eiginmanni sínum Woody Vasulka. Saman hafa þau tekið virkan þátt í gerjun og frumkvöðlastarfi vídeólistar á heimsvísu. Árið 1965 fluttu þau til New York og stofnuðu The Kitchen í SoHo á Manhattan, sem var tilraunalistamiðstöð á sviði raflistar og nýmiðla.

Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937) sótti ungur námskeið í teikningu hjá Ásgerði Búadóttur. Hann nam myndlist í Kaupmannahöfn hjá Mogens Andersen og Jeppe Vontillius í Statens Museum for Kunst á árunum 1958–1960 og var við nám í París næstu tvö ár við Académie de la Grande Chaumiére og Académie Notre-Dame des Champs.

 

Sýningarstjórar sýningarinnar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir en sýningartillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2015.

Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Ísland 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði frá HÍ 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla. Í upphafi myndlistarferils síns lagði Aðalheiður áherslu á grafík og teikningar en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis. Hún starfar nú bæði sem myndlistamaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur.

Aldís Arnardóttir útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi árið 2012. Í masters ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýningunaExperimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980. Í störfum sínum hefur Aldís fengist nokkuð við skrif og hefur hún gert sýningartexta fyrir bæði listamenn og gallerí. Einnig sat hún í ritstjórn og skrifaði greinar fyrirSirkústjaldið, vefrit rekið af MA –nemum í menningar greinum við íslensku- og menningardeild HÍ.