Hvert safn endurspeglar gildi þess sem safnar. Á þetta jafnt við um einkasafn eða opinbera stofnun með langa sögu. Safnið endurspeglar það sem skiptir hvern þann máli sem lagði grunn að því – af eigin áhuga og áræðni, af innri þörf eða tilviljun. Þegar safn kemur í hlut samfélagsins má svo segja að það eignist eigið líf en það segir að sama skapi fjöldamargt um það samfélag sem það tilheyrir og vex í takt við. Um tíðaranda og breytilegan smekk fólks, um efnisnotkun og áherslur, um hugmyndir og hugsjónir.
Á sýningunni getur að líta valin verk, sem safnið hefur eignast síðan 2008 – eða á undanförnum fimmtán árum – eftir Egil Sæbjörnsson, Georg Guðna, Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur, Harald Jónsson, Hildigunni Birgisdóttur, Ingólf Arnarsson, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Philipp Valenta, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur og Unu Björgu Magnúsdóttur. Þá hafa sum verkanna ekki verið sýnd áður í safninu.
Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.