Framköllun

Hekla Dögg Jónsdóttir

Laugardaginn 17. janúar opnar Hafnarborg sýninguna Framköllun.

Verk Heklu Daggar Framköllun er sjálfstæður heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni ný innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til og dregur saman margt af því sem einkennt hefur sköpun hennar.

Sýningarsal Hafnarborgar hefur verið umbreytt í kvikmyndasýningasal, upptöku- og vinnslurými þar sem 16mm kvikmynd er unnin, sett saman og sýnd. Svarthvítir eiginleikar filmunnar einkenna rýmið og móta þá sköpun sem á sér stað innan ramma sýningarinnar. Framköllun er allt í senn skúlptúr, gjörningur og þátttökuverk þar sem Hekla Dögg kallar fram það afl sem býr í samstarfi skapandi einstaklinga en hún fær til liðs við sig fjölda listamanna sem vinna stutt myndskeið. Þeir hafa því áhrif á frásögn og framvindu listaverksins en sköpun og frásögn verksins verður að miklu leyti til á sýningartímabilinu. Þannig er sýningin breytileg og verkið ekki hið sama við upphaf sýningarinnar og lok.

Hekla Dögg Jónsdóttir (f. 1969) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991 – 1994. Hún sótti skiptinám við Listaháskólann í Kiel í Þýskalandi og viðbótarnám við Staatliche Hochschule für Bildende Künste í Frankfurt am Main. Að loknu námi í Þýskalandi hélt Hekla til Bandaríkjanna til náms við Listaháskólann í Kalíforníu, California Institute of the Arts þaðan sem hún lauk MFA prófi árið 1999. Þar í landi hlaut hún jafnframt styrk til dvalar við Skowhegan listamiðstöðina í Main. Frá því hún lauk námi hefur Hekla verið virk í list sinni og vakið athygli fyrir verk sem sýnd hafa verið í söfnum og á öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Tate Modern safninu í London og Truck samtímalistamiðstöðinni í Calgary í Kanada. Verk eftir Heklu eru í eigu opinberra safna og einkasafnara. Hekla Dögg hlaut viðurkenningu frá Höggmyndasjóði Richard Serra árið 2011 og var tilnefnd til Íslensku Sjónlistaverðlaunanna árið 2007. Hekla hefur kennt myndlist víða og hefur verið prófessors í myndlist við Listaháskóla Íslands frá árin 2012. Auk þess að skapa eigin verk hefur Hekla haft áhrif á íslenskan myndlistarheim meðal annars með því að standa að baki gallerí Kling og Bang sem hefur verið atkvæðamikið samfélag listamanna um árabil.

Framköllun nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs og Myndstefs auk þess sem sýningin er unnin í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Dagskrá:
Sunnudag 1. febrúar kl. 15
Listamannsspjall.

Sunnudag 15. febrúar kl. 14
Fjölskylduleiðsögn.