Á einkasýningu Sindra Ploder, Ef ég væri skrímsli, eru gestir leiddir inn í mynd- og hugarheim Sindra, sem var fyrr í ár útnefndur listamanneskja hátíðarinnar Listar án landamæra 2023. Sindri hefur teiknað skrímsli frá tólf ára aldri og notast helst við penna og pappír en hefur í seinni tíð einnig fært teikningar sínar yfir í þrívídd og gert skúlptúra í við, keramik, mósaík og textíl. Verk Sindra eru mörg hver sjálfsmyndir, þar sem glettni, dirfska og ögrandi gleði leynir sér ekki. Þá endurspeglast blikið í augum Sindra í teikningunum sem fanga áhorfandann við fyrstu sýn.
Sýningarstjóri er Íris Stefanía Skúladóttir.
Sindri Ploder (f. 1997) hefur tekið þátt í fjölda sýninga síðan árið 2016, nú síðast í sýningunni Brot af annars konar þekkingu sem sýnd var í Nýlistasafninu í ársbyrjun. Þá tók Sindri fyrst þátt í samsýningu á vegum List án landamæra árið 2017, þar sem hann vann með hönnuðinum Munda Vonda. Eins tók Sindri þátt í List án landamæra árin 2019, 2020 og 2022, þar sem hann sýndi teikningar, ullarmottu og viðarskúlptúra. Árið 2019 tók hann listaáfanga í Myndlistaskólanum í Reykjavík og var í kjölfarið með verk á samsýningu í skólanum en Sindri hefur síðan verið í listnámi hjá Fjölmennt.