Diskótek

Arnfinnur Amazeen

Á sýningunni Diskótek getur að líta ný verk eftir Arnfinn Amazeen þar sem hann sækir innblástur í óræðan myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að titillinn vísi í gleðskap er þetta heldur draugalegt diskótek, sem listamaðurinn hefur sett upp í Sverrissal Hafnarborgar. Hér er enginn glaumur og ekkert glys, heldur óljós ummerki um eitthvað sem hefur átt sér stað. Ómur af hávaða sem löngu er þagnaður.

Sýningin samanstendur af þremur hlutum. Á veggjum salarins má sjá seríu stórra blýantsteikninga, byggðar á gömlum skemmtistaðaauglýsingum. Hér hefur allt verið máð út nema valin grafísk mótíf og orðið „diskótek“. Auglýsingarnar eru óþekkjanlegar, aðeins spor eftir atburði. Fyrir miðju rými hangir hreyfanlegur skúlptúr í laginu eins og þrumuský. Hann er eins konar diskókúla og minnir á frumstæð mótíf auglýsinganna en sækir form sitt líka í klisjukenndar klippimyndir úr tölvuforritum (e. clip art). Í stað þess að tákna gleðilegt andrúmsloft dansgólfsins er diskókúlan nú drungalegur fyrirboði óveðurs. Allt um kring á gólfi salarins hefur notuðum skópörum verið raðað upp. Hér gæti verið um dansleik að ræða en í skónum eru marglita plastpokar, vísun í hina sígildu (og séríslensku?) hefð að setja poka í skóna sína til þess að blotna ekki í fæturna.

Til stóð að opna sýninguna á vormánuðum 2020 og hún var langt á veg komin þegar lýst var yfir alheimsfaraldri vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Verkunum var snarlega pakkað niður og þau sett til hliðar. En nú eru þau loksins komin upp úr kössum og hanga á veggjum, úr lofti og dreifa sér um gólf salarins, þar sem þau mynda eina heild. Ári seinna má líta á sýninguna sem fyrirboða um það sem koma skyldi, að brátt færi gamanið að kárna og öllu yrði skellt í lás fyrr en nokkurn grunaði.

Arnfinnur hefur frá upphafi ferils síns haft næma tilfinningu fyrir núinu. Í verkum sínum vinnur hann oftar en ekki upp úr heimildum fortíðar, sameiginlegri sögu og sinni eigin reynslu, til þess að reyna að skilgreina nútímann, fyrst og fremst fyrir sjálfan sig. Það mætti kalla höfundarverk listamannsins „rómantíska konseptlist“, svo notast sé við hugtak listgagnrýnandans Jörgs Heisers. Verk Arnfinns eru ekki nostalgísk, nema að litlu leyti, heldur miklu frekar byggð á skipulegri leit og hugmyndalegri framsetningu á þeim óskilgreindu tilfinningum sem krauma undir yfirborði samtímans og móta líf okkar.

Samtíminn er sífellt að minna okkur á að hætta stafi af öllum sköpuðum hlutum. Sú tilfinning að einhver ógn vofi yfir hefur verið leiðarstef í verkum Arnfinns um nokkurt skeið. Á síðustu einkasýningu hans á Íslandi, Undirsjálfin vilja vel í D-sal Hafnarhússins árið 2016, birtist þetta stef með skýrum hætti. Þar vann listamaðurinn verk með hliðsjón af alls kyns sjálfshjálparbókum, sem sjá má sem viðbragð við þeim hættum sem nútímamanneskjan telur sig búa við.

Að þessu sinni leitar Arnfinnur í myndheim íslenskrar skemmtistaðamenningar, líkt og áður hefur verið nefnt, og skoðar auglýsingar óþekktra höfunda sem birtust í dagblöðum landsins á síðustu öld. Þar er horft með sakleysislegum augum út í hinn stóra heim. Diskótekin heita Broadway, Hollywood eða Evrópa. Þegar „Topplausa go-go dansmærin dansar í kvöld“, eins og stendur auglýst á einum stað, er hægt að gleyma áhyggjum hversdagsins um stund. Hér birtist okkur kunnuglegt stef. Það er mikil stemning en á sama tíma er öllum ljóst að partíið sé að verða búið, að endalokin séu nú þegar í augsýn.

Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn virðist loksins vera á undanhaldi má sjá ný óveðursský hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Og bráðum munu gestir blotna rækilega í fæturna, ef þeir verða þá ekki búnir að setja plastpoka í skóna áður en ósköpin dynja á.


Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri við Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn, sem jafnframt ritar sýningartexta.

Arnfinnur Amazeen (f. 1977, Akranesi), stundaði nám við Listaháskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá Glasgow School of Art. Arnfinnur hefur búið og starfað í Kaupmannahöfn síðan 2006.