Alverund

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Hvað bera orð með sér? Hvað þýðir það að vera manneskja? Hvernig mótar tungumálið skilning okkar á heiminum, hugmyndir okkar um eigið sjálf og veruleika?

Þessar spurningar eru á meðal þess sem knýr Jónu Hlíf Halldórsdóttur áfram í listrænni rannsókn sinni á því hvernig merking verður til þvert á tungumál. Þá kannar hún sköpunarmátt tungumálsins – hvernig það tengir okkur, hvernig það gerir okkur fært að tjá einstakar tilfinningar og jafnvel hvernig það fellur um sjálft sig – þar sem hún veltir því fyrir sér hvort til séu hugtök sem halda merkingu sinni þvert á málsamfélög eða flæða milli menningarheima. Eða hvort merking sé í raun takmörkunum háð.

Á sýningunni Alverund vinnur Jóna Hlíf með samspil texta og mynda, þar sem ritað mál og myndræn framsetning renna saman og mörkin á milli hins staðbundna og hins algilda verða óljós; veggfletir verða að blaðsíðum og fyrirbæri verða að orðum. Þá leitar listakonan í brunn málvísinda, gervigreindar og heimspekilegrar hefðar og býr til rými þar sem áhorfandinn fær tækifæri til þess að hugleiða brotakennt eðli tungumáls og merkingar og hina mannlegu hvöt til að tjá sig. Sýningin tekst þannig á við hugmyndir um þýðanleika orða, hugtaka og sammannlegra upplifana í gegnum kerfi tungumálsins. Undir niðri er loks áhersla á hugmyndina um „mannlegt líf“ og hvort það verði nokkurn tímann aðskilið frá lífinu í breiðara samhengi.

Lifandi tungumál eru á sífelldri hreyfingu þar sem þau þenjast út og teygja sig í nýjar áttir, á sama tíma og þau skilja eftir sig eyður og eiga sér endimörk. Þannig má jafnvel líkja þeim við sjálfan alheiminn, þar sem þau endurspegla viðleitni okkar til að kortleggja og skilja umhverfi okkar svo langt sem við komumst. Þegar tungumál deyr út glatast enn fremur sú heimssýn sem var málhöfum eðlislæg, þar sem ný orð og ný þekking hættir að verða til á forsendum málsins og málnotendanna. Þannig felur hvert tungumál í sér þá þversögn og togstreitu sem einkennir hina hverfulu tilvist mannsins: Munum við einhvern tímann öðlast algildan skilning? Eða verður slíkur skilningur – algild merking – aldrei nema samsafn brota sem samsvara fjölda mannfólks, þar sem hver einstaklingur býr að sínum eigin reynsluheimi?

Jóna Hlíf Halldórsdóttir (f. 1978) útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2005, lauk MFA-gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og MA-gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012. Myndlist Jónu Hlífar hefur á undanförnum árum einkum snúist um að kanna konseptin tíma, verund og ímynd með hliðsjón af fyrirbærunum lýsingu, rými og framsetningu. Þá hefur Jóna Hlíf haldið einkasýningar á ýmsum sýningarstöðum bæði innanlands og erlendis, þar á meðal í BERG Contemporary og Listasafninu á Akureyri. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk hennar í eigu fjölda opinberra safna hér á landi.

Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.