Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson hefur búið meirihluta ævi sinnar í Cleveland í Ohio, þar sem hún vinnur að listsköpun sinni en heldur sterkt í rætur sínar á Íslandi. Hún kemur hingað til lands tvisvar á ári að jafnaði, ferðast, gengur um og tekur ljósmyndir, sem hún vinnur síðan úr þegar heim er komið. Á sýningunni Á hafi kyrrðarinnar verða bæði ný og eldri verk þar sem hún samtvinnar aðferðir vefnaðar og málaralistar auk útsaumsverka, nýrra blekteikninga og vatnslitaverka.
Auk þess að leita fanga í landslagi Íslands við gerð verka sinna hefur Hildur um árabil gert myndraðir sem byggja á heilaskönnunum og himintunglum, þar sem handlitaðir silkiþræðir tvinnast saman í dúnmjúku yfirborði og verða að athvarfi frá amstri hversdagsins. Þar fangar hún fíngert andrúmsloft víðáttu og kyrrðar í abstraktnálgun með hægum aðferðum handverksins – þar sem uppistaðan og ívafið er ofið í samhljómi.
Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson (f. 1963) lauk MFA-gráðu í myndlist frá Háskólanum í Kent State árið 1995 og BFA-gráðu frá sama skóla árið 1991. Hún nam myndlist við Cleveland Institute of Art 1985-1988 og lagði einnig stund á nám í arkitektúr við Kent State á árunum 1983-1985. Hildur er fædd í Reykjavík en hefur búið í Cleveland í um fjörtíu ár. Verk Hildar hafa verið sýnd víða, meðal annars í TANG-safninu, Tibor de Nagy-galleríinu og listahátíðinni Armory Show í New York, Samtímalistasafninu í Cleveland, William Busta-galleríinu í Cleveland, auk Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands. Verk eftir Hildi eru í eigu í fjölda safna, opinberra aðila og einkasafnara. Árið 2008 hlaut Hildur hin virtu verðlaun Cleveland Arts Prize í Cleveland Museum of Art í Ohio og árið 2015 hlaut hún viðurkenningu The Louis Comfort Tiffany Foundation.