Sunnudaginn 28. október kl. 15 verður listakonan Annie Charland Thibodeau, sem hefur dvalið í gestavinnustofu Hafnarborgar í Október, með vinnustofuspjall þar sem hún mun fjalla um verk sín og dvölina sem er senn að ljúka. Viðburðurinn fer fram á ensku, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Með skúlptúrum og innsetningum býr Annie Charland Thibodeau til víðfeðm rými til íhugunar, þar sem breytt form mætast og kallast á. Upphaf ferlis listakonunnar byggir á innsæi, þar sem hún safnar efnivið og mótar hann smátt og smátt með því að endurtaka ótal smá en nákvæm skref, sem setja sinn svip á þróunina. Með því að breyta efninu umbreytir hún eðli þess í rýminu og skapar kerfi sem er í senn ósveigjanlegt og ljóðrænt.
Samband þessara breyttu forma við nýtt umhverfi sitt verður sjálft viðfangsefni verka hennar. Eins vegur hún og metur þau fjölmörgu kerfi sem koma fram (mynd, ljós, rými) þegar hinir ólíku þættir skarast.
Í mínimalískum innsetningum listakonunnar býr hið kunnuglega til tengingar og brúar bilið á milli áhorfandans og verksins. Líkt og hinir breyttu hlutir eiga sinn stað í rýminu, verður samtímis vart við hið tilbúna landslag á tveimur mismunandi stöðum: í sjálfu sýningarrýminu og í hugskoti áhorfandans.
Um árabil hefur listakonan laðast að víðáttumiklum svæðum en þessi leit hefur nú leitt hana til Íslands. Hér hefur hún tekist á við listsköpun sína á íhugulan en frjálslegan máta, þar sem hún kannar hið íslenska landslag í leit að náttúrulegum efnivið.
Hún starfar á mörkum hins áþreifanlega og hins ímyndaða. Með því að breyta og setja jarðfræðileg fyrirbæri, sem hún hefur fundið, fram sem ljósmyndir varpar hún einnig ljósi á tilbúna hluti, sem standa á endimörkum hins greinilega, líkt og tálsýnir.
Annie Charland Thibodeau býr og starfar í Québecborg (Québec), þar sem hún stundaði nám í höggmyndalist. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölda viðburða og einkasýninga í Québec, til að mynda í Centre Bang (Chicoutimi), í Centre Regart (Lévis), í AXENÉO7 (Gatineau) og í Sherbrooke Museum of Fine Arts. Hún hefur einnig sótt gestavinnustofur á Írlandi (2015) og Ítalíu (2016), auk gestavinnustofu Hafnarborgar.
Þakkir hljóta Conseil des arts et des lettres du Québec, Les récollets-bâtisseurs og Les Offices jeunesse intenationaux du Québec fyrir að styrkja listakonuna til dvalarinnar.