Tónagull – fjöltyngd tónlistarsmiðja fyrir fjölskyldur

Sunnudaginn 2. febrúar kl. 14 býður Tónagull í samstarfi við Hafnarborg upp á fjöltyngda tónlistarsmiðju fyrir fjölskyldur með ung börn (0-4) ára. Í smiðjunni skemmta bæði börn og foreldrar sér við að syngja söngva og þulur, hreyfa sig og leika með litríka klúta, auk þess að spila á ýmis smáhljóðfæri sem eru sérstaklega valin fyrir þennan aldurshóp. Markmiðið með smiðjunni er að efla gleði og vellíðan í gegnum tónlist og hreyfingu, jafnt fyrir börn og foreldra.

Námskeiðsefnið sjálft er þróað af Helgu Rut Guðmundsdóttur, prófessor í tónmennt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og hefur verið í boði samfellt frá árinu 2004. Hafnarborg hefur svo verið samstarfsaðili Tónagulls síðan vorið 2020 þegar fyrst var boðið upp á reglulegar tónlistarsmiðjur á pólsku í safninu. Þá vekjum við sérstaka athygli á því að hvorki er krafist fyrri reynslu af tónlist né þarf að kunna íslensku til að taka þátt í smiðjunni – allar fjölskyldur, óháð móðurmáli og menningarbakgrunni, eru hjartanlega velkomnar. Tónagull er fyrir alla!

Leiðbeinandi er Natalia Duerte Jeremías.

Vinsamlegast skráið þátttöku hér en auk þess er hægt að kynna sér aðferðafræði Tónagulls nánar á tonagull.is.