Síðasti sýningardagur sýningarinnar Það sem fyrir augu ber, þar sem sjá má verk eftir hafnfirska gullsmiðinn og listamanninn Gunnar Hjaltason, verður sunnudaginn 21. mars næstkomandi. Þá verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna kl. 14 þar sem Unnur Mjöll Leifsdóttir, starfandi forstöðumaður Hafnarborgar, mun segja frá sýningunni. Með henni verður Sigurjón Gunnarsson, sonur listamannsins, sem mun veita gestum innsýn í líf og starf föður síns.
Gunnar Hjaltason (1920-1999) starfaði sem gullsmiður í Hafnarfirði um árabil en ástríða hans lá í myndlist. Verk hans voru sýnd víða, allt frá Eden í Hveragerði til Bogasals Þjóðminjasafnsins. Hann málaði með olíu, akrýl og vatnslitum en á þessari sýningu verða grafíkverk hans í forgrunni, enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Myndefnið er landslag, bæjarlandslag Hafnarfjarðar og náttúra Íslands.
Grímuskylda er á viðburðinum fyrir gesti fædda árið 2005 og fyrr, auk þess sem tveggja metra fjarlægð skal höfð milli óskyldra aðila.