Staldraðu við – listamannaspjall

Laugardaginn 29. mars kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á listamannaspjall með þeim Önnu Hrund Másdóttur og Birgi Snæbirni Birgissyni sem eiga bæði verk á sýningunni Staldraðu við. Þar munu þau meðal annars fjalla um eigin listsköpun og verk sín í samhengi sýningarinnar.  Þá er Birgir Snæbjörn annar sýningarstjóranna en sýningin er unnin í samstarfi við Mika Hannula.

Sýningin Staldraðu við beinir sjónum að listinni sem ferli og getu hennar til að tengjast áhorfandanum og umhverfi sínu. Hún vekur einnig upp spurningar um hvað gerist þegar við stöndum frammi fyrir verkum sem krefjast þess að við tökum þátt, verðum fyrir áhrifum og dveljum í augnablikinu. Verkum sem, í einlægni sinni og nánd, taka áhættu og ögra okkur til að hægja á og sökkva okkur í upplifunina.

Anna Hrund Másdóttir vinnur með fundna hluti og efni sem opinbera jafnvel nýjan og hverfulan léttleika tilverunnar þegar þeir eru teknir úr upprunalegu samhengi. Birgir Snæbjörn Birgisson umbreytir svo persónulegum og táknrænum hlutum í marglaga verk, þar sem hann vinnur með birtingarmynd eftirmyndarinnar á mörkum nærveru og fjarveru. Þrátt fyrir að nota mismunandi aðferðir eiga þau það sameiginlegt að vinna með efni sem geymir jafnvel leifar af fortíðinni og vekja þannig áhorfandann til umhugsunar um minni, umbreytingu og hið síbreytilega eðli merkingar.

Samhliða sýningunni kemur út bókin Linger, með greinum eftir Mika Hannula. Ritstjóri er Birgir Snæbjörn Birgisson og Sigrún Sigvaldadóttir annaðist hönnun bókarinnar. Útgefandi er Hunang og er útgáfan styrkt af Myndstefi og Hafnarborg.

Ókeypis aðgangur – sjáumst í Hafnarborg.