Sunnudaginn 23. febrúar kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á listamanna- og sýningarstjóraspjall með Danny Rolph, Joel Tomlin og Vanessu Jackson sem öll eiga verk á sýningunni Staldraðu við. Þá mun Mika Hannula, sem stýrir sýningunni ásamt Birgi Snæbirni Birgissyni, leiða samtalið, þar sem listamennirnir fjalla um listsköpun sína og verkin sem eru til sýnis. Spjallið verður á ensku.
Sýningin Staldraðu við beinir sjónum að listinni sem ferli og getu hennar til að tengjast áhorfandanum og umhverfi sínu. Hún vekur einnig upp spurningar um hvað gerist þegar við stöndum frammi fyrir verkum sem krefjast þess að við tökum þátt, verðum fyrir áhrifum og dveljum í augnablikinu. Verkum sem, í einlægni sinni og nánd, taka áhættu og ögra okkur til að hægja á og sökkva okkur í upplifunina.
Danny, Joel og Vanessa nálgast þessar spurningar hvert á sinn hátt. Danny og Vanessa laga verk sín að rými og aðstæðum, þar sem geómetrísk, óhlutbundin form taka völdin. Joel vinnur svo með tákn og form sem mynda sitt eigið sjónræna tungumál þegar þau eru sett saman. Líkt og sýningin sjálf, knýja verk þeirra okkur til að staldra við.
Samhliða sýningunni kemur út bókin Linger, með greinum eftir Mika Hannula. Ritstjóri er Birgir Snæbjörn Birgisson og Sigrún Sigvaldadóttir annaðist hönnun bókarinnar. Útgefandi er Hunang og er útgáfan styrkt af Myndstefi og Hafnarborg.
Ókeypis aðgangur – sjáumst í Hafnarborg.