Sunnudaginn 22. janúar kl. 14 bjóðum við gesti velkomna á sýningarspjall um sýninguna Glettu, þar sem sjá má verk eftir Sóleyju Eiríksdóttur (1957-1994): jafnt skúlptúra, leirmuni og tvívíð verk. Verkin spanna knappan en kraftmikinn feril Sóleyjar en Hafnarborg barst vegleg listaverkagjöf á liðnu ári, úrval voldugra skúlptúra úr steinsteypu eftir listakonuna. Þá munu Aðalheiður Valgeirsdóttir, annar sýningarstjóra, og Kristín Ísleifsdóttir, leirlistarmaður og vöruhönnuður, leiða gesti í gegnum sýninguna og leitast við að varpa ljósi á ævi og starf Sóleyjar.
Sóley Eiríksdóttir lagði stund á nám við málmiðnaðardeild Iðnskólans í Hafnarfirði í eitt ár eftir nám við Flensborgarskólann. Árið 1975 hóf hún svo nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, fyrst við kennaradeild en hún útskrifaðist síðan frá leirlistadeild skólans árið 1981. Sóley sýndi verk sín víða á stuttum ferli, meðal annars á Kjarvalsstöðum, í Hafnarborg, Gallerí Langbrók og Listasafni ASÍ, auk þess sem hún hélt sýningar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Lúxemburg, Kanada og Þýskalandi.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.