Laugardaginn 17. september kl. 13 býður Hafnarborg upp á grafíksmiðju, þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að vinna sín eigin grafíkverk undir faglegri handleiðslu. Þá verður unnið með ýmsar prentaðferðir, svo sem tréristu, stimplaþrykk og silkiþrykk, en leiðbeinendur eru Anna Snædís Sigmarsdóttir og Elísabet Stefánsdóttir. Þátttaka í smiðjunni er gestum að kostnaðarlausu og allt efni sem þarf til sköpunarinnar verður á staðnum. Smiðjan er haldin í tengslum við sýninguna Solander 250: Bréf frá Íslandi, sem nú stendur yfir í safninu, í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar á Íslandi og félagið Íslenska grafík.
Sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi er sett upp til að minnast þess að í ár eru 250 ár liðin frá Íslandsför sænska náttúravísindamannsins Daniels Solanders árið 1772. Þá skrásetti Solander og safnaði margs konar fróðleik um náttúru Íslands, menningu, siði og klæðaburð þjóðarinnar. Á sýningunni túlka tíu íslenskir listamenn frá félaginu Íslenskri grafík þessa atburði og þær breytingar sem hafa orðið á landi og þjóð síðan. Í safninu má svo einnig sjá sýninguna Paradise Lost – Daniel Solander’s Legacy, sem er ætlað að minnast ferða Solanders til Kyrrahafsins árið 1769 með sambærilegum hætti, en að loknum sýningartímanum í Hafnarborg munu sýningarnar ferðast hringinn í kringum landið.
Verið öll hjartanlega velkomin.