Hafnarborg leggur áherslu á að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu og listum og býður upp á leiðsagnir fyrir alla aldurshópa. Sjónarhorn eru fræðslustundir ætlaðar eldra fólki, sem hefur áhuga á menningu og listum, til að fræðast um starfsemi Hafnarborgar, yfirstandandi sýningar eða einstök verk úr safneign.
Á næstu fræðslustund, miðvikudaginn 11. maí kl. 14, verður rætt um sýningu Tinnu Gunnarsdóttur, Snert á landslagi, sem stendur yfir í safninu til sunnudags. Verkin á sýningunni eru hluti af yfirstandandi doktorsverkefni Tinnu sem byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði, þar sem hún kannar tengsl manns og landslags. Sýningin er hluti af HönnunarMars 2022.
Hægt er að skrá sig í síma 585 5790 eða með því að senda póst á netfangið [email protected]. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í Hafnarborg að lokinni dagskrá. Aðgangur er ókeypis.