Föstudaginn 16. desember kl. 18 munu þau Silva Þórðardóttir, söngkona, og Steingrímur Teague, píanóleikari og söngvari, koma fram ásamt þeim Andra Ólafssyni, bassaleikara, og Andrési Þór, gítarleikara, á fjórðu tónleikum Síðdegistóna í Hafnarborg á þessum vetri. Þá munu þau flytja efni af djassplötunni More Than You Know í bland við ýmsa jólastandarda, svo sem hið melankólíska lag „What Are You Doing New Year’s Eve?“, sem þau gáfu út nýlega.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.
Um plötuna More Than You Know:
Djassplatan myrka en ljúfa More Than You Know kom út á vínyl í sumarbyrjun 2022. Hljóðfæraskipan er fábrotin með eindæmum: Silva Þórðardóttir syngur og Steingrímur Teague spilar á wurlitzer og filtdempað píanó, ásamt því að raula annað slagið. Fyrir utan eitt örstutt bassaklarinettsóló – sem Jóel Pálsson leikur upp úr þurru í bláendann – koma engir aðrir flytjendur við sögu á plötunni. Lítið er um flugelda og bellibrögð í hljóðfæraleik en hverfandi áhersla er lögð á hefðbundna sveiflu eða grúv og af þeim rúmu tuttugu mínútum sem platan spannar fara mögulega tvær í sóló. Í staðinn er áherslan lögð á lögin sjálf og að skapa þeim bæði veglega og sérstæða umgjörð. Hægt er að hlusta á plötuna á Spotify með því að smella hér.