Næstu tónleikar tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg fara fram föstudaginn 1. apríl kl. 18. Þá kemur fram hljómsveitin Multiverse sem er kvartett trommuleikarans Scott McLemore en auk hans eru Hilmar Jensson, á gítar, Andrés Þór, á gítar og Nicholas Moraux, á bassa, sem skipa kvartettinn. Á tónleikunum verður kynnt ný útgáfa, Knowing, sem kom út í febrúar síðastliðnum en platan var tekin upp árið 2021 í Sono Studios í Prag, þegar kvartettinn var á tónleikaferðalagi um Evrópu. Efnisskráin byggir á tónsmíðum Scotts sem eru lagrænar og sækja innblástur til Johns Abercrombie og Bills Frisell. Kvartettinn, með gítarana tvo í fararbroddi, hrífur hlustandann með sér í vef laglína, stemningar og spuna.
Multiverse-kvartettinn kom fram á JazzAhead ráðstefnunni 2019 í Bremen í Þýskalandi og vakti mikinn áhuga á alþjóðavettvangi. Kvartettinn var valinn sama ár til að koma fram á InJazz í Rotterdam, Hollandi. Þá kom hann einnig fram á streymistónleikum tónleikaraðarinnar Jazz í Salnum í Kópavogi með stuðningi frönsku tónlistarstofunnar árið 2020. Fyrri plata sveitarinnar, The Multiverse, kom út árið 2018 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í þremur flokkum. Eins hefur hún fengið frábæra dóma á alþjóðavettvangi, þar á meðal frá Jazzwise Magazine í Bretlandi, Jazzthetik Magazine í Þýskalandi, Concerto Magazine í Austurríki og All About Jazz í Bandaríkjunum. Platan hefur einnig verið spiluð á útvarpsstöðvum um allan heim og var upptaka af tónleikum þeirra á Jazzhátíð Reykjavíkur árið 2018 spiluð í heild sinni á stöðinni ORF, sem starfar í Vín í Austurríki.
Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund og aðgangur er ókeypis.
Tónleikaröðin Síðdegistónar í Hafnarborg er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.