Föstudaginn 8. desember kl. 18 bjóðum við ykkur velkomin á síðustu Síðdegistóna ársins í Hafnarborg en að þessu sinni kemur fram tríó með Kristjönu Stefánsdóttur í fararbroddi. Þá leika með henni þeir Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Andrés Þór á gítar. Á efniskránni verða djasshúsgangar í bland við ýmislegt jólalegt og því tilvalið að lyfta sér upp með ljúfum og hátíðlegum djasstónum á aðventunni.
Kristjana Stefánsdóttir hefur verið leiðandi tónlistarkona á sviði íslenskrar djasstónlistar um árabil. Fyrsta plata Kristjönu kom út árið 1996 og telja plötur hennar nú vel á annan tug en hún hefur verið listamaður hjá Dimmu útgáfu síðan 2006. Undanfarin ár hefur hún samið tónlist fyrir leikhús, nú síðast fyrir Shakespeare sýninguna Hvað sem þið viljið, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu 2023, og fékk hún tilnefningu til Grímunnar fyrir tónlistina í verkinu. Kristjana hefur sömuleiðis margsinnis verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og er margfaldur Grímuverðlaunahafi.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og Tónlistarsjóði Rannís.