Föstudaginn 19. apríl kl. 18 mun Blúsband Maríu Magnúsdóttur koma fram á næstu Síðdegistónum í Hafnarborg en Blúsband Maríu er nýstofnuð hljómsveit. Hljómsveitina skipa stórsöngkonan María Magnúsdóttir, reynsluboltinn Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Birgir Steinn Theodorsson, sem handleikur bassann af einskærri snilld, og hin fjölhæfa Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommur.
Á efnisskrá kvöldsins verða gamlir blúsar í nýjum útsetningum ásamt nýju efni sem snertir á gullöld sálartónlistarinnar. Þá heiðrar hljómsveitin listamenn á borð við Robert Johnson, Bessie Smith, Ettu James, Beth Hart og Tom Waits.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ, Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði FÍH.