Laugardaginn 2. október kl. 14 verður boðið upp á spjall um sýninguna Samfélag skynjandi vera með listamönnunum Kathy Clark og Nermine El Ansari, auk Wiolu Ujazdowska, sem stýrir sýningunni ásamt Hubert Gromny. Munu þær segja gestum frá verkum sínum á sýningunni, auk þess að ræða það samhengi sem verkin eru í innan sýningarinnar. Þá mun Ólöf Bjarnadóttir, fræðslufulltrúi Hafnarborgar, hafa umsjón með spjallinu og túlka umræður fyrir þá gesti sem þess kunna að óska, þar sem spjallið mun að mestu fara fram á ensku.
Á sýningunni er leitast við að skoða tengingu okkar við heiminn í nýju ljósi, með því að líta á okkur öll sem eitt stórt samfélag skynjandi vera. Þá má nálgast ólík viðfangsefni á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur þannig undan viðjum gildishlaðinna orða, svo hægt er að ímynda sér hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega, svo sem hún varðar það hvað og hver við teljum tilheyra samfélaginu.
Kathy Clark er myndlistarmaður og sýningarstjóri sem hefur búið og starfað í Reykjavík síðan 2005. Skúlptúrverk og margmiðlunarinnsetningar hennar fela gjarnan í sér frásagnir og fantasíu, sem einkennast af notkun tákna í tengingu við eins konar hulduheim, svo og stöðu verkanna inn og út á við. Hún hefur sýnt verk sín við ýmis tækifæri hér á landi, svo sem í Listasafni Reykjavíkur og á Listahátíð í Reykjavík, auk þess að halda sýningar á heimaslóðum í Kaliforníufylki. Þá má finna verk eftir hana í söfnum bæði á Íslandi og í Ameríku. Kathy hefur enn fremur stýrt sýningum í Wind and Weather Window Gallery í Reykjavík síðan 2012, þar sem gangandi vegfarendur geta séð verk jafnt leiðandi sem upprennandi listamanna í gluggum gallerísins á Hverfisgötu.
Nermine El Ansari býr og starfar sem myndlistarmaður í Reykjavík. Árið 1998 lauk hún diplómanámi í málaralist frá Listaskólanum í Versölum. Árið 2002 útskrifaðist hún svo frá École nationale superieure des beaux arts (ENSBA) í París, þar sem hún nam margmiðlun. Sama ár hélt hún einnig til náms við Instituto Superior de Arte (ISA) í Havana. Verk hennar hafa verið sýnd í Egyptalandi, Frakklandi, Líbanon, Þýskalandi, Taívan, Kúbu og víðar. Síðustu tíu árin hefur hún beint sjónum sínum að borgum, landamærum, yfirráðasvæðum og kortlagningu, náttúrulegri eða tilbúinni, þar sem hún leitast við að kanna þær tvenndir sem verða til innan þéttbýlisins.
Wiola Ujazdowska er myndlistarkona, gjörningalistamaður og listfræðingur, búsett í Reykjavík. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Kóperníkusarháskólanum í Toruń, Póllandi, þar sem hún lagði einnig stund á málaralist við myndlistardeild skólans. Á árunum 2012-2013 stundaði hún svo nám við CICS í Köln, Þýskalandi. Verk Wiolu fást að mestu við líkama og kyn á hinu pólitíska sviði, með tilliti til fólksflutninga, stéttaskiptingar, landamæra og trúarkenninga, auk þess sem hún tekst á við menningar- og félagsfræðilega strúktúra í heimspekilegu, mann- og menningarfræðilegu samhengi.
Gestum er einnig bent á röð listgjörninga sem fara fram á laugardögum yfir sýningartímann, þar sem sjá má myndlistarmanninn Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson að störfum í Sverrissal Hafnarborgar. Eru þessir lifandi viðburðir einmitt í tengslum við verk Rúnars á sýningunni, Sjúga & spýta lifa og starfa. Þá hefst gjörningurinn um svipað leyti og sýningarspjallið og stendur fram eftir degi, svo hægt er að grípa tækifærið og njóta lifandi listar að loknu góðu spjalli.
Verið öll velkomin – aðgangur ókeypis.