Safnanótt í Hafnarborg: Hæ/Bæ – Bæ/Hæ

Föstudaginn 3. febrúar verður haldið upp á Safnanótt í Hafnarborg og því munu dyr safnsins verða opnar fram á kvöld, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði, svo sem tónleika, jógastund, leiðsögn og fleira. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt.


Þórdís Erla Zoëga
Hæ/Bæ – Bæ/Hæ
„Ekkert hverfur alveg. Allt breytist einhvern tímann en kemur aftur í öðru formi.“

Í tilefni Safnanætur verður tvíhliða verki eftir myndlistarkonuna Þórdísi Erlu Zoëga varpað á gafl Hafnarborgar, sem og innri vegg safnsins, svo vegfarendur, gestir safnsins og fólk í nágrenni þess fái notið þessa tímabundna listaverks. Þórdís lauk námi við Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012 og hefur verið virk í sýningarhaldi bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Í listsköpun sinni vinnur Þórdís með tengsl okkar við hinn stafræna heim, stefnur og rútínur í margvíslegum miðlum.

18:00
Síðdegistónar í Hafnarborg – Tríó Sunnu Gunnlaugs
Tríó Sunnu Gunnlaugs, píanóleikara, kemur fram á fyrstu tónleikum Síðdegistóna í Hafnarborg árið 2023. Tríóið skipa auk Sunnu þeir Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Scott McLemore á trommur en saman munu þau leika valin lög af plötum sínum í bland við nýtt efni. Tríóið hefur á undanförnum árum komið fram víða hérlendis og erlendis þar sem þau hafa vakið athygli fyrir einstaka blöndu hins ljóðræna evrópska tónheims og amerísku djasshefðarinnar.

20:00
Jógastund fyrir alla – Anna Rós Lárusdóttir
Blanda af skemmtilegum styrktar- og jafnvægisstöðum og ýmsum teygjum við góða föstudags-jógatónlist. Í lokin verður síðan slökun við mjúka og notalega tóna. Tíminn er byggður á Hatha Vinyasa og verður áhersla lögð á andlega og líkamlega vellíðan. Tilvalið að koma og eiga saman góða stund og fara endurnærð inn í helgina. Jógastundina leiðir Anna Rós Lárusdóttir í aðalsal Hafnarborgar, innan um skúlptúra listakonunnar Sóleyjar Eiríksdóttur sem bera titla eins og Æfing, Staða, Kollhnís o.s.frv.

21:00
Leiðsögn um yfirstandandi sýningar
Boðið verður upp á leiðsögn um yfirstandandi sýningar safnsins ásamt Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar. Þá mun hún leiða gesti um sýningarnar Glettu, þar sem sjá má verk sem spanna feril Sóleyjar Eiríksdóttur (1957-1994), og Án titils, þar sem sýnd eru fágæt verk eftir Eirík Smith (1925-2016). Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti sem sýningar á verkum þeirra feðgina eru haldnar undir sama þaki á sama tíma.


Á Safnanótt býðst gestum Vetrarhátíðar að heimsækja um fimmtíu söfn og skoða fjölbreyttar sýningar á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt því sem söfnin bjóða upp á lifandi og skemmtilega dagskrá. Menningarstofnanir Hafnarfjarðar, Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg, taka þátt eins og áður en Safnanótt var síðast haldin árið 2020. Frítt er inn á öll söfnin í tilefni kvöldsins.