Laugardaginn 30. október kl. 15 mun myndlistarkonan Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir flytja tónverk sem hluta af lifandi gjörningi í samtali við skúlptúr sinn á sýningunni Samfélagi skynjandi vera. Verk Katrínar Ingu á sýningunni, RAW PURENESS – SELFLOVE, er til marks um rannsóknir listakonunnar á hugmyndum um umhyggju fyrir sjálfinu og mikilvægi þess að gera tilkall til kvenleikans, handan dæmigerðra birtingarmynda hans í dægurmenningu.
Skúlptúrinn, sem felur í sér hljóð, í tengslum við væntanlega tónlistarplötu listakonunnar, gengur út á rannsókn á tilfinningum og sjálfskoðun, svo og pólitískri þýðingu þess að bera umhyggju fyrir sjálfinu. Í gjörningnum mun listakonan vinna með líkamann til þess að virkja verkið, þar sem hún leggur áherslu á líkamnaða nálgun og persónulega tengingu, sem svo birtist í verkinu.
Þá fer einnig fram síðasti gjörningur myndlistarmannsins Rúnars Arnar Jóhönnu Marinóssonar en gjörningarnir hafa verið hluti af dagskrá sýningarinnar undanfarna laugardaga, í tengslum við verk hans á sýningunni, Sjúga & spýta lifa og starfa. Verður listamaðurinn að störfum í safninu frá kl. 14.
Efnisviðvörun: vinsamlegast athugið að gjörningur Katrínar Ingu felur í sér nekt. Tímalengd gjörnings hennar er um 20 mínútur.
Verið öll velkomin – aðgangur ókeypis.