Föstudaginn 21. febrúar kl. 18 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar Staldraðu við, þar sem getur að líta verk eftir átta listamenn frá Englandi og Íslandi. Á sýningunni er sjónum beint að list sem ferli og getu hennar til að tengjast áhorfandanum og umhverfi sínu. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Anna Hrund Másdóttir, Birgir Snæbjörn Birgisson, Danny Rolph, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Joel Tomlin, Kristinn Már Pálmason, Peter Lamb og Vanessa Jackson. Sýningarstjórar eru Birgir Snæbjörn Birgisson og Mika Hannula.
Að staldra við er þegar við höfum tilhneigingu til að dvelja lengur vegna tregðu til að fara. Sú tregða er oft knúin áfram af angurværri löngun, þótt við vitum ekki endilega hvers vegna og hvað það er sem við þráum. Það sem við vitum er einfaldlega að við verðum að staldra við. Þá kallar sýningin fram spurningar um hvað gerist þegar við stöndum frammi fyrir verkum sem krefjast þess að við tökum þátt og verðum fyrir áhrifum. Verkum sem í sakleysi sínu og nánum aðstæðum eru áhættusækin.
Þá nota þátttakendur mismunandi aðferðir og tækni til að nálgast þessar spurningar. Anna Hrund og Ingibjörg vinna með fundna hluti og efni sem opinbera jafnvel nýjan og hverfulan léttleika tilverunnar þegar þeir eru teknir úr upprunalegu samhengi. Verk Dannys og Vanessu laga sig að rýminu og aðstæðum og leyfa geómetrískum, óhlutbundnum formum að taka völdin. Birgir Snæbjörn og Peter vinna út frá og eftir ljósmyndum og nota marglaga birtingarmynd eftirmyndarinnar til að nálgast hið óáþreifanlega. Tákn og form Joels og Kristins Más verða svo, þegar þau eru sett saman, að sínu eigin tungumáli. Öll átta deila þau þeirri trú að myndlist sé staður uppgötvana – ekki felustaður – og knýja verk þeirra okkur til að staldra við.
Samhliða sýningunni kemur út bókin Linger, með greinum eftir Mika Hannula. Ritstjóri er Birgir Snæbjörn Birgisson og Sigrún Sigvaldadóttir annaðist hönnun bókarinnar. Útgefandi er Hunang og er útgáfan styrkt af Myndstefi og Hafnarborg.
Ókeypis aðgangur – sjáumst í Hafnarborg.