Laugardaginn 25. janúar kl. 15 bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin á opnun sýningar Helga Vignis Bragasonar, Kyrrs lífsferils, sem hverfist um myndræna rannsókn ljósmyndarans á byggingum og byggingarefnum. Þá felur myndefnið í sér marglaga greiningu á upphafi og endalokum bygginga, þar sem Helgi skoðar á gagnrýninn hátt fjölmargar hliðar byggingariðnaðarins, svo sem efnisnýtingu, sóun og umhverfisáhrif. Á sýningunni má meðal annars sjá kyrralífsmyndir sem unnar eru út frá byggingarúrgangi eða velmegunartáknum af byggingarsvæðum, auk mynda af steypubrotum og teikninga af byggingum sem hafa verið rifnar langt fyrir aldur fram. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2025 og sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.
Uppbygging og iðandi byggingasvæði eru nútímatákn hagsældar og velmegunar, rétt eins og 16. aldar kyrralífsmyndir hollenskra listamanna voru fyrir það samfélag sem þær spruttu úr. Í gegnum tíðina hefur fjöldi byggingarkrana aftur á móti gjarnan verið túlkaður sem tákn um blómlega efnahagsstöðu landsins – því fleiri sem kranarnir eru, því meiri er uppgangurinn í samfélaginu. Þannig má líta á uppstillta, innflutta byggingarkrana eins og dýrmætt góss frá fjarlægum löndum. Þó má einnig nefna að nánast ekkert á þeim byggingarsvæðum sem finna má hérlendis er íslenskt að uppruna – ekki sementið, ekki kerfismótin, ekki rafmagnsvírarnir, ekki stoðirnar.
Þessi þróun er skýrt merki um áhrif hagsældar og alþjóðavæðingar, sem ná vissulega langt út fyrir íslenskan byggingariðnað. Í verkum sínum bendir listamaðurinn hins vegar á að í svo hröðum hagvexti skorti oft hagsýni, forsjálni og nýtni. Þá má jafnframt nefna að byggingar sem hafa jafnvel aðeins fengið að standa hálfa meðalævi manns eru í mörgum tilfellum rifnar niður til að rýma fyrir nýjum byggingum, sem vekur aftur spurningar um hverfult eðli byggðaþróunar og þann fórnarkostnað sem vill jafnan gleymast þegar hið manngerða umhverfi tekur breytingum.
Helgi Vignir Bragason (f. 1972) útskrifaðist með diplóma í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum árið 2023. Áður hafði hann lokið M.Sc. námi í framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík (2013) og B.Sc. gráðu í byggingafræði frá Vitus Bering CVU í Horsens, Danmörku (2003). Þá tengjast verk Helga gjarnan áratugalangri reynslu hans af byggingariðnaðinum. Meðal nýlegra sýninga listamannsins má nefna ÁBATI – hugleiðing um efni í Slökkvistöðinni, Reykjavík (2024), og Ljósrák í Gallery Kannski, Reykjavík (2024). Helgi Vignir er meðlimur í FÍSL og SÍM og býr og starfar í Hafnarfirði.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.