Fimmtudaginn 29. maí kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á opnun tveggja nýrra sýninga í Hafnarborg en að þessu sinni verða opnaðar sýningarnar Í sátt við efni og anda, þar sem litið er yfir langan og fjölbreyttan feril listamannsins Eiríks Smith, og Óður til lita, sýning á síðari verkum Sveins Björnssonar sem unnin eru af mikilli innlifun og litagleði í Sverrissal safnsins. Sýningarnar eru settar upp í tilefni af því að listamennirnir hefðu báðir fagnað 100 ára afmæli í ár, hefði þeim enst aldur.
Eiríkur Smith: Í sátt við efni og anda
Ferill Eiríks Smith (1925-2016) var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum. Þar er maðurinn oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Í gegnum tíðina tók nálgun hans miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn leitaði meðvitað á nýjar slóðir.
Þannig má líkja listferli Eiríks við pendúl sem sveiflast milli tveggja póla. Hann leitar bæði fanga í samtali við hið huglæga og hið hlutlæga og á síðari hluta ferilsins koma tímabil þar sem hann fer bil beggja. Í þeim má skynja þá sannfæringu listamannsins að lífinu sé best lifað í sátt við hvort tveggja, efni og anda. Sýnd verða valin verk frá öllum ferli hans, auk eldri teikninga frá námsárum í Kaupmannahöfn og París. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.

Sveinn Björnsson: Óður til lita
Sveinn Björnsson (1925-1997) var afkastamikill myndlistarmaður sem var lengst af búsettur í Hafnarfirði. Sveinn vann einkum með málverk en gerði einnig teikningar, klippimyndir og keramikverk. Verkin á sýningunni eru öll frá síðasta tímabili hans þegar hann helgaði sig alfarið abstrakt olíumálverki, þar sem liturinn varð honum bæði yrkisefni og innblástur.
Hér birtist samspil tærra og sterka lita í þróttmiklum strokum, þar sem litir blandast hver öðrum og mynda nýja tóna. Þá hafði Sveinn sterka tengingu við náttúruna og vinnustofa hans í Krýsuvík varð honum helgistaður, þar sem litir lands og himins urðu að uppsprettu og innblæstri. Sveinn var menntaður við Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn og verk hans hafa verið sýnd víða, meðal annars hérlendis og í Danmörku. Þá prýða verk hans opinberar byggingar, þar á meðal stórt mósaíkverk í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Sýningarstjóri er Sigrún Hrólfsdóttir.
Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.