Miðvikudaginn 13. júlí kl. 20 munu Bryndís Björgvinsdóttir, rithöfundur, sagn- og þjóðfræðingur, og Aldís Arnardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, leiða göngu þar sem velt er upp hugleiðingum um álfa og aðrar verur sem kunna að búa í klettum bæjarins. Gengið verður frá Hafnarborg og gangan endar svo með leiðsögn um yfirstandandi sýningu á verkum myndlistarmannsins Gunnars Arnar Gunnarssonar í Hafnarborg.
Á sýningunni Í undirdjúpum eigin vitundar eru sýnd verk frá öllum ferli Gunnars Arnar Gunnarssonar, sem spannar tæplega fjörtíu ár, en á þeim tíma gekk hann í gegnum nokkrar umbreytingar og stokkaði reglulega upp viðfangsefni sín. Gunnar Örn var gríðarlega afkastamikill listamaður og eftir hann liggur mikill fjöldi verka: teikningar, einþrykk, málverk og skúlptúrar, vatnslitaverk auk verka sem unnin eru með blandaðri tækni. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.
Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.
Menningar- og heilsugöngur framundan
20. júlí kl. 17
Þessir gömlu góðu
Janus Guðlaugsson, eigandi Janusar heilsueflingar, rifjar upp, kennir og leiðir stórfjölskylduna alla í gegnum þessa gömlu góðu útileiki sem voru vinsælir fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Tilvalin skemmtun fyrir alla í fjölskyldunni. Gengið frá Víðistaðakirkju.
27. júlí kl. 20
Æskuslóðir í Suðurbænum
Leifur Helgason leiðir göngu um æskuslóðir sínar í Suðurbænum. Gengið frá Gúttó.
3. ágúst kl. 17
Buslganga að Arnarvatni
Davíð Arnar Stefánsson leiðir göngu að Arnarvatni. Ef veðrið er gott er kjörið að taka með sér teppi og nesti og busla í vatninu. Gengið frá bílastæðinu við Seltún, Krýsuvík.
10. ágúst kl. 18
Villtar matjurtir í Hafnarfirði
Mervi Orvokki Luoma leiðir gesti um Hafnarfjörð í leit að gómsætum, villtum jurtum. Gengið frá Bókasafni Hafnarfjarðar
17. ágúst kl. 20
Umhverfis eitt Klifsholtanna
Valgerður M. Hróðmarsdóttir leiðir göngu umhverfis eitt Klifsholtanna, að Lambgjá og Smyrlabúð með viðkomu í gróðurreit Rótarý og Lionsklúbbs Hafnarfjarðar. Gengið frá bílastæðinu við Helgafell.
24. ágúst kl. 17
Kyrrðarganga við Stórhöfða
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir, eigendur fræðslufyrirtækisins Saga Story House, leiða kyrrðargöngu við Stórhöfða. Um er að ræða rólega göngu með leiddum núvitundaræfingum þar sem gengið er að hluta til í þögn. Gengið frá bílastæðinu vestan megin við Hvaleyrarvatn (nær Völlum).
31. ágúst kl. 20
Sagan, safnið og gamli bærinn
Björn Pétursson, bæjarminjavörður Hafnarfjarðar, leiðir göngu um gamla bæinn. Gengið frá Pakkhúsi Byggðasafnsins.