Listasmiðjur í vetrarfríi – Skúlptúr og sköpun

Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi dagana 24. og 25. febrúar. Smiðjurnar eru opnar öllum börnum og fjölskyldum þeirra sem vilja láta sköpunargleðina flæða og njóta þess að vinna með fjölbreyttan efnivið í skúlptúrlist. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

Fjöltyngd skúlptúrsmiðja með Lukasi Bury og Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur
Mánudaginn 24. febrúar kl. 13-15
Myndlistarmennirnir Lukas Bury og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir leiða fjölskylduvæna listasmiðju á íslensku, pólsku og ensku. Þá fá börn og fullorðnir tækifæri til að skapa litrík og skemmtileg listaverk úr fjölbreyttum efnivið. Að auki fá þátttakendur innblástur úr sýningum safnsins og læra að nýta hugmyndir úr listaverkum í eigin sköpun.

Skúlptúrsmiðja með Önnu Hrund Másdóttur
Þriðjudaginn 25. febrúar kl. 13-15

Myndlistarmaðurinn Anna Hrund Másdóttir leiðir listasmiðju þar sem lögð er áhersla á að njóta augnabliksins og leyfa skapandi hugsun að flæða. Þátttakendur vinna með fundinn efnivið og eru hvattir til að skapa leikandi létta skúlptúra. Allt efni verður á staðnum, svo þátttakendur þurfa aðeins að mæta með opinn hug og sköpunargleði. Þá er Anna Hrund einn af þátttakendum í sýningunni Staldraðu við, sem stendur nú yfir í Hafnarborg.

Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.