Hafnarborg býður grunnskólabörnum í vetrarfríi að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins dagana 22. og 23. febrúar. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.
Fjöltyngd klippimyndasmiðja
Fimmtudaginn 22. febrúar kl. 13-15
Myndlistarmennirnir Lukas Bury og Unnur Mjöll Leifsdóttir munu leiða smiðju þar sem unnar verða litríkar klippimyndir úr pappír. Í smiðjunni fá þátttakendur að kynnast töfraheimi lita og forma. Hægt verður að skoða sýningar safnsins til að leita að hugmyndum fyrir sína eigin listsköpun. Leiðbeinendur smiðjunnar tala íslensku, ensku og pólsku.
Leir, sköpun og mótun
Föstudaginn 23. febrúar kl. 13-15
Þóra Breiðfjörð, hönnuður, verður með smiðju þar sem unnið verður með leir á skapandi hátt. Leitað verður innblásturs á sýningu Jónínu Guðnadóttur, Flæðarmáli, sem nú stendur yfir í safninu. Þátttakendur fá jarðleir í þremur mismunandi litum, fá að kynnast efninu og gera tilraunir með mótun leirsins. Listaverkin sem gestir skapa verða í framhaldinu brennd í leirofni og hægt verður að nálgast þau síðar í afgreiðslu Hafnarborgar.
Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.