Listasmiðjur í vetrarfríi – haustið 2024

Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi dagana 24. til 25. október næstkomandi. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

Frjáls listsköpun – teikning og litir
Fimmtudaginn 24. október kl. 13-15

Boðið verður upp á létta stemningu þar sem þátttakendur smiðjunnar geta komið saman og teiknað í samvinnu hvert við annað. Unnið verður sameiginlegt listaverk, með spunakenndum hætti, og myndast þannig ein stór teikning. Allt efni verður tiltækt og gestir hvattir til þess að prufa sig áfram með notkun ýmiss konar efnis við listsköpunina, svo sem blýanta, tréliti, túss, vatnsliti og kol. Leiðbeinandi er Sigurður Ámundason, myndlistarmaður.

Hrekkjavöku-origami
Föstudaginn 25. október kl. 13-15

Í smiðjunni fá þátttakendur að kynnast listinni að búa til origami, eða pappírsbrot, að japanskri hefð. Þá munu gestir læra að brjóta og móta pappírinn svo að í ferlinu verða til skuggalegar skreytingar í anda hrekkjavöku. Leiðbeinendur eru Yasuka Kawakami, sem mun miðla origami-aðferðum frá heimalandi sínu Japan, ásamt Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, myndlistarmanni. Leiðbeinendur smiðjunnar tala íslensku, ensku og japönsku. Viðburðurinn er hluti af viðburðaröð safnins Á mínu máli.

Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.