Sunnudaginn 22. febrúar kl. 15 verður Tumi Magnússon með listamannsspjall þar sem hann ræðir verk sín og sýninguna við safngesti.
Á sýningunni eru ný verk eftir Tuma Magnússon sem lengi hefur verið í fremstu röð íslenskra listamanna. Titill sýningarinnar Largo – presto er sóttur í stóra innsetningu sem einkennist af reglubundnum hljóðum og hreyfingu. Ólíkir taktar, hægir og hraðir, sameinast og verða að mótsagnakenndri upplifun af síbylju og kyrrð. Hamarshögg, bank í borð og fótatak eru á meðal þeirra hljóða sem sem hljóma um sali Hafnarborgar og mynda síbreytilegan takt sem svo ferðast um rýmið og tengist átta aðskildum myndflötum.
Verkin á sýningunni bera sterk höfundareinkenni Tuma en hann hefur frá upphafi ferils síns unnið með hversdagslega hluti eða athafnir sem hann sýnir þó ekki á hversdagslegan hátt. En viðfangsefni sín nálgast hann iðulega með einstakri næmni og oft á tíðum hárfínum húmor. Tumi kvaddi sér hljóðs á tímum nýja málverksins og hefur ætíð reynt á þanþol málverksins með því að tengja það rými eða færa lögmál þess um merkingarbæran myndflöt inn í heim kvikra mynda og hljóðs.
Tumi Magnússon stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976 – 1978, í Academie voor Beeldende Kunst í Enschede, í Hollandi og í Granada á Spáni. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1981 í Rauðahúsinu á Akureyri og hefur síðan haldið meira en fjörutíu einkasýningar og átt verk á ótal samsýningum bæði á Íslandi og erlendis. Verk Tuma eru í eigu safna hérlendis og erlendis jafnframt því sem varanleg verk eftir hann hafa verið sett upp í almannarými í Danmörku. Í gegnum árin hefur Tumi verið mikilvirkur myndlistarkennari og gegndi stöðu prófessors um árabil við Listaháskóla Íslands 1999 – 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 2005 – 2011. Tumi býr og starfa jöfnum höndum á Íslandi og í Danmörku.