Sunnudaginn 9. febrúar kl. 14 fer fram listamannsspjall um sýninguna Far, þar sem Þórdís Jóhannesdóttir, myndlistarmaður, mun ræða við gesti um verk sín á sýningunni og það samtal sem þar á sér stað við verk Ralphs Hannam, áhugaljósmyndara sem var virkur á Íslandi um miðja síðustu öld.
Þórdís Jóhannesdóttir og Ralph Hannam koma að ljósmyndun um óhefðbundnar leiðir. Þórdís er myndlistarmaður sem notar ljósmyndina sem sinn miðil, án þess að leggja áherslu á tæknina. Ralph var áhugaljósmyndari og af þeim verkum sem varðveitt eru eftir hann má sjá að hann nálgast ljósmyndun sem leið til listrænnar sköpunar. Samspil verka þeirra er sannfærandi og óþvingað en formið er viðfangsefni þeirra beggja. Það sjónræna samtal sem fer fram á sýningunni á uppruna sinn í umhverfinu – hversdagsleikanum – og minnir okkur á að fegurðin getur búið víða.
Þórdís Jóhannesdóttir er fædd árið 1979, hún lauk BFA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2007 og meistaranámi frá sama skóla árið 2018. Hún hefur starfað að myndlist ein og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir merkjum Hugsteypunnar. Þórdís hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis.
Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.