Sunnudaginn 3. maí kl. 15 tekur Finnur Arnar Arnarson myndlistarmaður þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni MENN í Hafnarborg.
Finnur Arnar Arnarson (f. 1965) hefur fundið hugmyndum sínum farveg í ljósmyndum, videoverkum, skúlptúrum og innsetningum. Hann sækir sér innblástur í sitt nánasta umhverfi og hefur unnið verk þar sem fjölskylda hans er viðfangsefnið en einnig hefur hann unnið verk í félagi við fjölskyldu sína. Finnur stundaði myndlistarnám við fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 – 1991. Hann hefur samhliða vinnu sinni að myndlist hannað leikmyndir fyrir leikhús og sýningar fyrir ýmis menningarsögusöfn.
Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Á sýningunni eru verk eftir fjóra karllistamenn, þá Hlyn Hallson, Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarsson og Kristinn G. Harðarson. Nánar um sýninguna hér.