Sunnudaginn 3. september kl. 13 mun Elísabet Brynhildardóttir, myndlistarmaður, taka á móti gestum og segja frá verkum sínum á sýningunni Hikandi línu sem lýkur einmitt þann sama dag. Á sýningunni eru sýnd bæði ný og eldri verk þar sem Elísabet gaumgæfir aðgerðina að teikna og kannar óteljandi möguleika sjálfrar línunnar.
Teikningin er fyrsta sjónræna viðbragð okkar við heiminum löngu áður en við lærum að skrifa og virkar hún sem eins konar vörpun ímyndunarafls og hugsana í efni. Fáir miðlar myndlistarinnar komast eins nálægt hrárri sýn listamannsins eins og teikningin – hún er beintenging við hugsunina og varpar jafnframt ljósi á afar náið samband manns og verkfæris. Þá skoðar Elísabet tímann, tilfinninguna og skynjunina að baki teikningarinnar, eða eins og listamaðurinn Richard Serra sagði eitt sinn: „Þú býrð ekki til teikningu – þú teiknar“.
Elísabet Brynhildardóttir (f. 1983) vinnur með fjölbreytta miðla, þótt teikning og skúlptúr séu þar mest áberandi. Í verkum sínum skoðar hún samband okkar við efnisheiminn og þolmörk þess, ásamt því að velta fyrir sér hugmyndum um tíma og hverfulleika. Þá hefur hún tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og öðru myndlistartengdu starfi og hafa verk hennar meðal annars verið sýnd í i8 Gallery, Listasafninu á Akureyri, Kling & Bang, Skaftfell og Nýlistasafninu. Elísabet útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist árið 2007 frá The University College for the Creative Arts í Bretlandi.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.