Fimmtudaginn 7. maí tekur Curver Thoroddsen myndlistarmaður þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni MENN í Hafnarborg.
Curver Thoroddsen (f. 1976) er þekktur fyrir gjörninga og önnur listaverk þar sem listin og hversdagslegar athafnir renna saman. Verk hans eiga sér oft stað fyrir utan hefðbundin sýningarrými eða í sýningarsölum sem hann umbreytir og gerir að heimili sínu. Curver nam myndlist við Listaháskóla Íslands og við School of Visual Arts í New York þaðan sem hann lauk MFA námi 2009. Jafnframt því að stunda myndlist hefur Curver verið virkur tónlistarmaður m.a. með Ghostigital.
Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Á sýningunni eru verk eftir fjóra karllistamenn, þá Hlyn Hallson, Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarsson og Kristinn G. Harðarson. Sýningin stendur til sunnudagsins 10. maí.
Nánar um sýninguna hér.