Sunnudaginn 9. ágúst kl. 14 munu Claudia Hausfeld og Pétur Thomsen ræða við safngesti um verk sín á sýningunni Enginn staður – íslenskt landslag sem nú stendur yfir í aðalsal Hafnarborgar.
Á sýningunni eru verk átta ljósmyndara sem allir eru búsettir á Íslandi og beina sjónum sínum að íslenskri náttúru. Ásamt Claudiu og Pétri eiga Björn Árnason, Daniel Reuter, Edda Fransiska Kjarval, Ingvari Högna Ragnarson, Katrín Elvarsdóttir og Stuart Richardsson verk á sýningunni. Verkin eru öll unnin á árunum 2008 – 2015.
Sýningarstjórar eru Áslaug Íris Friðjónsdóttir ogUnnur Mjöll S. Leifsdóttir.
Nánar um sýninguna hér.
Claudia Hausfeld er fædd árið 1980 í Berlín. Hún stundaði nám í ljósmyndun við Listaháskólann í Zürich í Sviss. Hún útskrifaðist með BFA gráðu úr Listaháskóla Íslands árið 2012. Claudia hefur tekið þátt í að reka listamannarekin rými í Sviss, Danmörku og Íslandi og er nú stjórnarmeðlimur Nýslistasafnsins. Claudia notast við ljósmyndina sem miðil í listsköpun sinni og vekur upp spurningar með verkum sínum um framsetningu, minni, og minnisleysi sem og skilning okkar á því sjónræna.
Pétur Thomsen er fæddur í Reykjavík árið 1973 og býr og starfar í Sólheimum. Undanfarin ár hafa ljósmyndaseríur hans, Innflutt landslag og Umhverfing, hlotið verðskuldaða athyggli á Íslandi og erlendis en báðar seríurnar fjalla um það hvernig maðurinn reynir að taka yfir náttúruna og umbreyta henni.
Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar. Árið 2004 vann hann Tíunda LVMH young artists’ award og árið 2005 var hann valinn af Musée de L’Élysée í Lausanne fyrir reGeneration 50 Photographers of Tomorrow. Sýningin Innflutt landslag í Þjóðminjasafni Íslands var valin sýning ársins 2010 á Íslandi.
Pétur er stofnmeðlimur og fyrrum stjórnarformaður FÍSL, Félags íslenskra samtíma ljósmyndara.