Sunnudaginn 9. mars kl. 13 bjóðum við ykkur velkomin á spjall um sýningu Helga Vignis Bragasonar, Kyrrs lífsferils, sem nú stendur yfir í safninu. Þá mun listarmaðurinn eiga samtal við arkitektinn og menningarfræðinginn Önnu Maríu Bogadóttur um viðfangsefni sýningarinnar, sem hverfist um myndræna rannsókn ljósmyndarans á byggingum og byggingarefnum. Myndefnið felur þannig í sér marglaga greiningu á upphafi og endalokum bygginga, þar sem Helgi skoðar á gagnrýninn hátt fjölmargar hliðar byggingariðnaðarins, svo sem efnisnýtingu, sóun og umhverfisáhrif. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir og var sýningin sett upp sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2025.
Á sýningunni má meðal annars sjá kyrralífsmyndir sem unnar eru út frá byggingarúrgangi eða velmegunartáknum af byggingarsvæðum, auk mynda af steypubrotum og teikninga af byggingum sem hafa verið rifnar langt fyrir aldur fram. Með því að beina sjónum að byggingarsvæðum og -úrgangi býður Helgi Vignir okkur að hugleiða umhverfis, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif byggðaþróunar í nútímasamhengi. Vandlega unnin kyrralífsverk hans, með nákvæmum uppstillingum litríkra plastumbúða, eru til marks um gríðarlegt magn byggingarefnis sem fer aftur af bygginarstað í formi úrgangs. Auk þess að vekja áhorfendur til umhugsunar um lífsferil bygginga, kann sýningin því að vekja spurningar um hverfult eðli byggðaþróunar og þann fórnarkostnað sem vill jafnan gleymast þegar hið manngerða umhverfi tekur breytingum.
Helgi Vignir Bragason útskrifaðist með diplóma í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum árið 2023. Áður hafði hann lokið M.Sc. námi í framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík (2013) og B.Sc. gráðu í byggingafræði frá Vitus Bering CVU í Horsens, Danmörku (2003). Þá tengjast verk Helga gjarnan áratugalangri reynslu hans af byggingariðnaðinum. Meðal nýlegra sýninga listamannsins má nefna ÁBATI – hugleiðing um efni í Slökkvistöðinni, Reykjavík (2024), og Ljósrák í Gallery Kannski, Reykjavík (2024). Helgi Vignir er meðlimur í FÍSL og SÍM og býr og starfar í Hafnarfirði.
Anna María Bogadóttir er löggiltur mannvirkjahönnuður, skipulagsráðgjafi og dósent við arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hún lauk meistararáðu í arkitektúr frá Columbia Háskóla í New York árið 2009 en hafði áður starfað í um áratug við menningar- og sýningarstjórn á Íslandi og Danmörku og lokið M.A. gráðu í menningarfræði og M.Sc. gráðu í stafrænni hönnun og miðlun. Hún leggur áherslu á menningar- og félagslegar hliðar arkitektúrs sem hún nálgast frá sjónarhóli daglegs lífs í samhengi flókinna kerfa og hvata. Anna María vinnur með arf, frásagnir og miðlun sem umbreytandi afl í byggðu umhverfi og verk hennar finna sér farveg þvert á miðla á vettvöngum arkitektúrs, ritlistar og sjónlista. Þá er hún höfundur bókarinnar Jarðsetningar sem kom út árið 2022.
Ókeypis aðgangur – sjáumst í Hafnarborg.