Hljóðön – Yunge Eylands Varpcast Netwerkið

Sunnudaginn 7. maí  kl. 20 fara fram í Hafnarborg tónleikar kammerhópsins Ensemble Adapter, sem skipaður er þeim Gunnhildi Einarsdóttur, hörpuleikara, og Matthiasi Engler, slagverksleikara. Gestir hópsins á tónleikunum verða þau Celeste Oram, tónskáld og flytjandi, og Keir GoGwilt, tónskáld og fiðluleikari. Flutt verður samstarfsverk hópsins og þeirra Celeste og Keirs, Yunge Eylands Varpcast Netwerkið. Tónleikarnir eru hluti af samtímatónleikaröð Hafnarborgar, Hljóðönum. Þess má geta að Ensemble Adapter er staðarlistahópur tónleikaraðarinnar Hljóðana starfsárið 2022-2023.

Í verkinu Yunge Eylands Varpcast Netwerkið er fengist við menningarlegt sjálfstæði smærri þjóða á borð við Ísland og Nýja-Sjáland/Aotearoa og þau áhrif sem útvarpsmiðillinn hefur haft á þessi samfélög í gegnum tíðina. Með tilkomu miðilsins gerðist kleift að mynda menningarbrýr á milli landfræðilegra fjarlægra samfélaga og hafði miðillinn þannig töluverð menningarleg og félagsleg áhrif bæði hér á Íslandi og í Nýja-Sjálandi/Aotearoa. Finna má fjölmörg dæmi þar sem menningaröfl stóru heimsveldanna hafa haft áhrif á þessar tvær eyþjóðir í gegnum viðtækin heima fyrir.

Dæmin eru ólík, allt frá félagslegum og efnahagslegum umbreytingum, auðlindastjórnun og ólíkum formum landnáms, svo sem einokunarverslun, hernaðarhagsmuna, þjóðarmorða og eignaupptöku lands. Samanburður á sögu þessara tveggja eyríkja, Íslands og Nýja-Sjálands/Aotearoa, gefa okkur vísbendingar um framtíðina hvað varðar persónulegan og pólitískan sjálfsákvörðunarrétt hvers samfélags fyrir sig í heimi þar sem öll samfélög eru hver öðru háð. Að þessu sögðu er verkið þó um hversdaginn og um það að lifa frá degi til dags – því allir staðir eru fjarlægir einhverjum öðrum stöðum og þó er engin eyland.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg. Almennt miðaverð er kr. 2.500, verð fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1.500.

Hljóðön, samtímatónleikaröð Hafnarborgar, er sérstaklega tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar, þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir en tónleikaröðin hefur verið hluti af dagskrá Hafnarborgar síðan 2013. Tónleikarnir njóta stuðnings Tónlistarsjóðs, Menningarsjóðs FÍH og Deutschlandfunk Kultur.


Kammerhópurinn Ensemble Adapter starfar bæði hér á landi og í Berlín. Stofnmeðlimirnir Matthias Engler, slagverksleikari, og Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, leiða starf hópsins þar sem einblínt er á samstarf og samsköpun með fjölbreyttum hópi listamanna víða um heim. Ensemble Adapter nálgast tónlistarsköpun á breiðum grunni og starf hópsins er fjölbreytt, allt frá því að skapa, sýningarstýra, framleiða, halda úti vinnusmiðjum og fræðslu yfir í flutning samtímatónlistar, hvort sem er á sviði eða í gegnum aðra rafræna miðla. Allt frá stofnun hópsins árið 2004 hefur hópurinn frumflutt hundruði verka og komið fram á fjölda hátíða og tónleika um Evrópu.

Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, hefur starfað um víða Evrópu með kammerhópum og hljómsveitum á borð við Klangforum Wien, Ensemble Recherche, Ensemble Modern, Ensemble Mosaik, CAPUT Ensemble og Kammersveit Reykjavíkur, auk hljómsveita á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Konzerthausorchester í Berlin, Bayerisches Staatsorchester í München og Lautencompagnie í Berlín. Sem einleikari hefur Gunnhildur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pernu City Orchestra, Ensemble Modern og Ensemble Recherche en Gunnhildur hefur haldið einleikstónleika víða og meðal annars komið fram á tónleikaröð Les signes de l’arc í París og í Nordic Heritage Museum í Seattle.

Matthias Engler, slagverksleikari, hefur starfað með fjölda kammerhópa um Evrópu en má þar einkum nefna Ensemble Modern og MusikFabrik. Í því samhengi hefur Matthias unnið með helstu tónskáldum og stjórnendum í heimi samtímatónlistar á borð við Pierre Boulez, Helmut Lachenmann, Maurizio Kagel og Steve Reich, auk annarra. Matthias hefur jafnframt komið fram á öllum helstu samtímatónlistarhátíðum Evrópu, svo sem Darmstädter Ferienkurse für Neue Musik, MaerzMusik, Donaueschinger Musiktage og World New Music Days.

Keir GoGwilt, fiðluleikari og tónskáld, býr og starfar í New York. Í tónlist Keirs fléttast saman sagnfræðilegar rannsóknir og tilraunakennt samstarf sem þverar tónlistarstíla og stefnur. Gagnrýnendur hafa lýst Keir sem „framúrskarandi flytjanda“ (New York Times) með „áhrifaríkan tón“ (London Jazz News) sem brýst fram af „fingrafimri snilld“ (San Diego Union Tribune). Sem einleikari hefur Keir komið fram með hljómsveitum á borð við Orchestra of St. Luke’s, Philharmonia Baroque Orchestra, Chinese National Symphony, Orquesta Filarmonica de Santiago og the Boston Modern Orchestra Project. Sem stofnmeðlimur American Modern Opera Company (AMOC) hefur Keir flutt sínar eigin tónsmíðar í bland við samskapaða tónlist fyrir dans og leikhús á hátíðum og tónleikastöðum á borð við Luminato Festival, PS 122 COIL, Stanford Live, Carolina Performing Arts, the Momentary og Ojai Music Festival.

Celeste Oram, tónskáld og flytjandi, er af breskum og bandarískum ættum en hún ólst upp í Nýja-Sjálandi/Aotearoa og býr nú og starfar í New York. Í gegnum tónlistina kannar Celeste menningu og samfélagssögu smærri menningarsamfélaga og miðlar því sem fyrir augu hennar ber í gegnum texta, tónlist, ræður, rafhljóð, sjónræna þætti, leikhús og spuna. Hefur verkum Celeste verið lýst sem „óvenjulegri skemmtun sem tekur á sögunni á áhrifaríkan hátt“ og hefur hún hlotið tilnefningar til verðlauna á borð við Sounz Contemporary Award, CANZ Trust Fund Award og Kranichstein Composition Prize á Sumarnámskeiðinu í Darmstadt. Tónlist Celeste hefur verið flutt víða um heim af flytjendum og hljóðfærahópum á borð við New Zealand Symphony Orchestra, Auckland Philharmonia Orchestra, Birmingham Contemporary Music Group, the American Modern Opera Company, Ruckus Early Music, Fonema Consort, Arcus Collective, Longleash, wasteLAnd, Autoduplicity, Steven Schick, Stephen de Pledge, auk annarra.